148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það, þetta er ómögulegt ástand. Ég hef rætt það við forsætisráðherra og formann minn um að þetta sé ekki líðandi, það sé ekki hægt að hafa þetta með þessum hætti. Gagnrýni mín í þingflokki Vinstri grænna hefur ekki breyst frá því á fyrri þingum. Ég sagði strax í upphafi að mér fyndist málaskráin of stór miðað við stutt vorþing, burt séð frá því hvort mál væru endurflutt eða ekki, vegna þess að það er ekki endilega víst að allir vilji endurflytja málin óbreytt.

Ég hef komið því rækilega á framfæri, og gerði það síðast í dag, að þetta gætum við ekki liðið.

Svo ég segi það þá er ekkert mál fast í þingflokki Vinstri grænna. Meira að segja voru afgreidd mál á þriðjudaginn sem ég hélt að yrðu lögð fram fyrir lok þingfundar í gær þannig að hægt væri að taka þau á dagskrá á morgun. En einhverra hluta vegna skiluðu þau sér ekki úr ráðuneytunum, svo það sé líka sagt. (Forseti hringir.) Þannig að ég veit ekki til þess að það sé mikil stífla, a.m.k. ekki í þingflokkunum.

En ég tek undir þessa gagnrýni, þetta er ekki hægt. Þetta þýðir léleg vinnubrögð í lokin. Við viljum ekki hafa það þannig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)