148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir viðleitni hennar til að tala við stjórnarandstöðu. Það er mjög jákvætt og því ber að fagna. Ég vil sömuleiðis fagna því að hér taki stjórnarliðar undir áhyggjur okkar. Það breytir hins vegar ekki áhyggjunum sjálfum og leysir ekki úr vandanum sem við bendum á.

Ég held að sé rétt sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir stingur upp á, að það sé betra að fá fá og þá vel unnin mál úr ráðneytunum. Ég óttast bara að þau verði ekki fá. Ég held að þau verði mörg. Það er reynsla mín frá þarsíðasta kjörtímabili. Ég veit ekki til þess að neitt sé í þann mund að breytast í þessum efnum. Vísbendingar benda alla vega ekki til þess eins og stendur.

Það er eitt sem ég mundi leggja til að væri gert ef hugmyndin er að leggja fram færri mál, að þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verði uppfærð á vef Stjórnarráðsins. Reyndar sendi ég erindi í dag til forsætisnefndar þar sem ég bað um að ríkisstjórnin yrði beðin um að þetta yrði gert þegar hún ákveður að leggja ekki fram mál, þannig að við séum þá alla vega á sömu blaðsíðu varðandi það sem hún ætlar að leggja fram. (Forseti hringir.) En eins og þetta lítur út núna sjáum við fram á að það verði of mikið að gera í vor til að geta staðið vel að verki. Þegar við sjáum (Forseti hringir.) það fyrir hljótum við að vilja gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fyrirbyggja það.