148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:20]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er búin að vera athyglisverð umræða. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum Vinstri grænna sem hér tóku til máls þar sem þau lýstu því að þau styddu fyllilega sjónarmið okkar í þessu máli. Ég er afskaplega þakklátur fyrir það. Ég verð hins vegar að segja að ég hef vissa samúð með þeim, að svo lítið sé hlustað á þau, sennilega ekki innan eigin flokks, mér sýnist að það sé ekki vandamálið, það er hreint borð hjá þingflokki Vinstri grænna, er sagt. Þannig að einhvers staðar annars staðar eru málin.

Mér dettur nú í hug eftir ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar að það sé einhver ástæða fyrir því, að þetta sé allt saman svo íþyngjandi fyrir borgarana að Sjálfstæðisflokkurinn treysti sér ekki til að leggja málin fram. Kannski er það ástæðan. Einhvers staðar festast þau. Ég veit ekki af hverju, en einhvern veginn leiði ég hugann að því. Ég hvet hv. þingmenn til dáða. Þau hafa að minnsta kosti stuðning okkar til þess að ýta málum frá ríkisstjórninni.