148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

aðgangur að trúnaðarupplýsingum.

[10:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Sú sem hér stendur er ekki að dylgja um nokkurn skapaðan hlut. Ég var að spyrja hæstv. ráðherra spurningar sem hann svaraði ekki. En svona atriði skipta máli. Afstaða hæstv. fjármálaráðherra skiptir mjög miklu máli. Ef honum finnst ekkert óeðlilegt við þessa stöðu, sem flestum öðrum finnst, er það eitt og sér sannarlega áhyggjuefni.

Sú ákvörðun að fara aðra leið með Arion banka en Íslandsbanka var tekin að kröfu Sjálfstæðismanna, að sögn fyrrum samstarfsmanns hæstv. ráðherra í ríkisstjórn, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sporin hræða þegar kemur að fjármálakerfinu og aðkomu Sjálfstæðismanna. Allt ferlið þarf að vera gegnsætt og opið. En það er það ekki. Söluferli Arion banka er óljóst. Samningar við ríkið hafa ekki allir verið gerðir opinberir. Við vitum ekki hverjir eiga vogunarsjóðina.

Er ekki kominn tími til að við hættum þessu pukri og fúski og viðurkennum að það vinnur gegn hagsmunum almennings? Getur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að minnsta kosti ekki verið sammála mér um það?