148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

kaup vogunarsjóða í Arion banka.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd ríkisins var reyndar greitt atkvæði gegn því á hluthafafundi að bankinn fengi heimild til þess að kaupa eigin bréf.

Þannig er mál með vexti að ríkið hefur bara farið með 13% eignarhlut og að mati Bankasýslunnar er alveg óumdeildur einhliða kaupréttur á hlut ríkisins. Ég tek eftir því að hv. þingmaður segir að gengið sem um ræðir í viðskiptunum sé gjafverð. Mig langar til þess að biðja hann um að útlista það aðeins betur hvernig hann almennt leggur mat á virði fjármálafyrirtækja vegna þess að hann virðist búa yfir einhverjum nánari greiningum á virði bankans.

Er ekki staðan sem er að renna upp fyrir hv. þingmanni og samflokksmönnum hans þessi: Yfirlýsingar Miðflokksins fyrir kosningar voru gjörsamlega innihaldslausar? Hugmyndir um að það væri hægt að afhenda íslenskum almenningi einn þriðja af Arion banka, banka sem ríkið yfir höfuð átti ekkert og myndi þurfa að borga 60–70 milljarða til þess að eignast þann hlut, voru innihaldslaust blaður, engin innstæða fyrir því. Það þýðir ekkert að koma hér upp í þingsal í dag, hálfu ári eftir kosningar og fara að blása upp moldviðri um hluti sem hafa legið fyrir í samningum í mörg ár og eru hluti af aðgerðum stjórnvalda sem hafa heppnast vel, til þess að breiða yfir gjörsamlega mislukkaða kosningastefnu Miðflokksins sem nú er að renna upp fyrir mönnum að engin innstæða var fyrir.

Eða hvað eru það margir tugir milljarða sem hv. þingmaður er tilbúinn að reiða fram til þess að kaupa hlut í fjármálafyrirtæki þannig að hægt sé að efna kosningaloforð Miðflokksins um að dæla út 70 milljörðum og gjaldfæra á ríkissjóð? (Gripið fram í.)