148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

kaup vogunarsjóða í Arion banka.

[10:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag að verðmæti dótturfélags bankans séu gríðarleg. Vogunarsjóðirnir nýta þennan kauprétt vegna þess að þeir sjá tækifæri til þess að koma ríkinu út úr bankanum og geta þar með vélað um eignir bankans og stórgrætt á þeim. Nú liggur þessi flétta fyrir, eins og ég rakti. Þá birtist okkur sú staðreynd að það er markmið erlendra hluthafa bankans að nota eigið fé bankans til þess að kaupa hlut ríkisins á undirverði til þess eins að eignarhlutur annarra hluthafa, sem eru erlendir vogunarsjóðir, aukist að verðmæti. Með öðrum orðum, þeir kaupa hlutinn án þess að þurfa að taka upp veskin, eins og ég sagði áðan, og græða á honum vegna þess að hann er svo ódýr. Það sjá það allir að hann er ódýr vegna þess að dótturfélögin eru svo verðmæt. Það er ósköp einfalt.

Getur ráðherra upplýst, eins og hann upplýsti kannski, að við höfum beitt neitunarvaldi? Neitunarvaldið er í hluthafasamkomulaginu og það er gott ef því var beitt.

En hefur ráðherra óskað eftir upplýsingum um afstöðu Fjármálaeftirlitsins til (Forseti hringir.) þessarar háttsemi annarra eigenda Arion banka? Geta þetta talist góðir (Forseti hringir.) stjórnarhættir hjá fjármálafyrirtæki?