148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

kynferðisbrot gagnvart börnum.

[10:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Enn og aftur fáum við fregnir af kynferðislegri misnotkun barna og manni fallast hendur. Það er ljóst að ef hægt er að koma í veg fyrir þessi brot þá ber okkur svo sannarlega skylda til þess að beita öllum þeim úrræðum sem sýnt hafa einhverja virkni í þá átt. Ég spyr: Gerum við það?

Árið 2012 fullgildi Ísland Lanzarote-samninginn, bindandi Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi. Þar er kveðið á um að einstaklingar sem haldnir eru barnagirnd hafi aðgang að aðstoð, t.d. í formi meðferðar til að minnka líkurnar á að einstaklingurinn láti undan kenndum sínum.

Í apríl 2013 kom út skýrsla samráðshóps forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn. Var ein tillaga samráðshópsins sú að útbúið yrði opið úrræði þar sem einstaklingar sem óttast að þeir kunni að fremja kynferðisbrot eða hafi kenndir til barna gætu fengið meðferð sem byggðist á mati á áhættu með það að markmiði að koma í veg fyrir að brotið yrði framið. Staðan er samt sú að hér á landi fá fullorðnir einstaklingar með barnagirnd litla sem enga aðstoð og þurfa að kosta meðferð sína sjálfir, sem dregur mjög úr líkum á því að þeir nýti sér það nauðsynlega úrræði.

Í Bretlandi, Írlandi og Bandaríkjunum eru hjálparsímar auglýstir fyrir gerendur sem vantar aðstoð við að stoppa sig af. Hér á landi hafa samtökin Blátt áfram og Rauði krossinn reynt að bjóða upp á svipað úrræði en það strandar á fjárveitingum. Forvarnastarf í þessum málaflokki getur bjargað mannslífum. Fræða þarf bæði fullorðna og börn um barnagirnd og hvernig hjálpa eigi bæði þolendum og gerendum. Slík fræðsla hvetur fólk til að taka nauðsynleg skref til að vernda börn áður en þau verða fyrir ofbeldi. Þetta er bráðnauðsynlegt starf og mér þykir furðulegt að samtök og einstaklingar á þessu sviði skuli þurfa að vera í eilífri baráttu við að fjármagna sig.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna strandar svo mikilvægur þáttur í vernd barnanna okkar á fjárveitingum?