148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

kynferðisbrot gagnvart börnum.

[10:47]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að taka þetta mál hér upp og taka undir áhyggjur hennar af þeim fréttum sem við sjáum allt of oft og hafa til að mynda borist núna undanfarið.

Varðandi það hvernig við fjármögnum félagasamtök og fleira sem þessu tengist hefur það yfirleitt verið gert í gegnum sérstaka safnliði. Ég vil þó segja að ég legg mikla áherslu á þennan málaflokk og hef frá því að ég tók við sem ráðherra hitt flest þau félagasamtök sem eru fjölmörg, eins og hv. þingmaður nefndi, til þess að ræða með hvaða hætti við getum brugðist fyrr við með forvörnum og úrræðum gagnvart börnum. Eftir að þessar fréttir komu hef ég líka fundað með þeim aðilum sem að þessum málum koma, bæði barnaverndarnefndum, Barnaverndarstofu, lögreglu og fleiri aðilum, til þess að ræða til hvaða aðgerða við getum gripið.

Hv. þingmaður nefndi Lanzarote-nefndina. Ég hef m.a. rætt þetta mál við Braga Guðbrandsson, sem er forstjóri Barnaverndarstofu og hefur setið í stjórn Lanzarote-nefndarinnar frá 2012 og var formaður hennar um tíma, með hvaða hætti við Íslendingar getum gripið til markvissari aðgerða en við höfum gert í þessum málaflokki. Ég vonast til þess að geta komið með einhverjar tillögur úr þeirri vinnu og unnið áfram með þessum aðilum. Þá nefni ég sérstaklega forstjóra Barnaverndarstofu vegna þess að hann hefur mikla þekkingu á þessum málaflokki og hvað er að gerast í þessum efnum í nágrannalöndum okkar. Þá bind ég vonir við að koma með tillögur í þingið til þess að bæta stöðu þessara hópa, ekki bara barnanna heldur líka gerenda. Ég vonast til þess að í ríkisfjármálaáætlun til næstu ára verði fjármagn sérstaklega eyrnamerkt í þann flokk sem snýr að börnum, snemmtækum úrræðum gagnvart þeim og kynferðislegu ofbeldi, sem koma því miður allt of margar fréttir af, (Forseti hringir.) sem eru vægast sagt sorglegar og ógeðfelldar.