148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

kynferðisbrot gagnvart börnum.

[10:51]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Forvarnir. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að forvarnir eru langbesta leiðin til þess að koma í veg fyrir slíkt. Eins og ég sagði áðan er verið að vinna gott starf hjá félagasamtökum og líka hjá hinu opinbera. En ég held að hið opinbera velferðarkerfi standi sig þó ekki nægilega vel á öllum sviðum og þarf að styrkja og efla vinnuna varðandi kynferðislegt ofbeldi og fleiri þætti. Það held ég að sé að hluta til ástæðan fyrir því að frjáls félagasamtök spretta nú upp í félagsþjónustu almennt. Og ekki bara varðandi kynferðislegt ofbeldi.

Í velferðarkerfi okkar tala kerfin eru ekki saman, sveitarfélögin, það sem heyrir undir félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti. Ég ætla mér að reyna koma af stað stefnumótunarvinnu og er að undirbúa vinnu sem miðar að því að tengja saman ólíka málaflokka í þessu efni þannig að kerfin fari að tala saman. Samhliða því vil ég sjá hvernig við getum tengt frjáls félagasamtök inn í það. Ég get ekki sagt það nægilega oft, ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt og sé eitt af þeim málum þar sem er gríðarlega mikilvægt að tengja alla saman, hvort sem það er stjórn eða stjórnarandstaða, þetta er ekki pólitískt mál. Ég fagna þessari fyrirspurn mjög mikið.