148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

skerðingar í lífeyriskerfinu.

[10:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra um krónu á móti krónu skerðingu. Slík skerðing er enn á borðum öryrkja. Hvað þýðir slík skerðing? Jú, hún þýðir að ef þér eru réttar dánarbætur með vinstri höndinni kemur hægri höndin og rífur þær allar af þér. Það þýðir að ef þú færð einhvers staðar smátekjur þá eru þær teknar af þér.

Hverjir lenda verst í þessu af öryrkjum? Jú, konur. Það er með ólíkindum að það skuli vera þannig í dag. Ég veit ekki hvort þetta er sýn þeirra sem settu þessi lög og gera ekkert í því að breyta þessu, að þeir sjái það fyrir sér að haltur leiði blindan í mataraðstoð. Þetta er að ske. Það er verið að hjálpa blindu fólki til að fá mat, hjálparstofnanir. Það er verið að hjálpa illa fötluðum einstaklingum að fá mat. Hvað gerist þá? Jú, lyfjakostnaður hækkar, læknisþjónusta. Er það svarið? Að hækka allt og skila engu til baka?

Ef þetta var tilgangurinn með lögunum langar mig að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hvað ætlar hann að gera í þessu? Allir flokkar í ríkisstjórninni hafa lofað því að taka krónu á móti krónu skerðinguna út. Hvers vegna í ósköpunum hafa þeir ekki gert það?

Ef þá vantar hjálp við það er ég viss um að í þessum þingsal munu allir styðja það miðað við það sem sagt var í kosningabaráttunni. Þetta á ekki að vera neitt vandamál. Þess vegna vil ég fá að vita hver stefnan er, hvenær á að gera þetta og hvort við getum gert þetta strax. Ég er viss um að við munum hjálpa hæstv. ráðherra til þess.