148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

skerðingar í lífeyriskerfinu.

[10:55]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Bætt kjör þeirra sem verst standa, þá sérstaklega örorkulífeyrisþega sem hv. þingmaður kom inn á, eru mikilvæg mál. Ríkisstjórnin hefur það á stefnu sinni að endurskoða kjör þessara hópa samhliða því sem endurskoðun almannatryggingakerfisins fer fram og jafnhliða því sem við innleiðum nýtt starfsgetumat á þessu sviði og endurhæfingarkerfi. Ég hef lagt mikla áherslu á það og fundað mjög reglulega með Öryrkjabandalagi Íslands, Þroskahjálp og fleiri aðilum sem að þessu koma. Það er þess vegna fagnaðarefni að ég held að menn séu að ná saman núna um stærstu útlínurnar í því hvernig þetta starfsgetumat og nýja endurhæfingarkerfið geti virkað, eða svona flæðiritið í því. Það var kynnt í ríkisstjórn í síðustu viku. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir að skipa sérstakan vinnuhóp sem í verða ekki allt of margir aðilar og er ætlunin að sá hópur starfi fram á vor og fari yfir m.a. þá þætti sem snúa að starfsgetumati annars vegar og ná þarf að tengja það inn í ólíka málaflokka og hins vegar endurskoðun almannatryggingakerfisins gagnvart þessum hópi.

Þar inni verður að sjálfsögðu m.a. rætt króna á móti krónu skerðingin. Núna er verið að teikna upp tímarammann í þessu, hvaða þættir verði teknir fyrir, í hvaða viku, hvaða atriði það eru sem við þurfum að ræða, stjórnvöld annars vegar og hagsmunaaðilar þessara hópa hins vegar. Ég á von á því að í þessari viku komi inn ósk um tilnefningu í þann starfshóp þar sem gert er ráð fyrir að tveir fulltrúar ríkisstjórnarmeirihlutans og einn fulltrúi stjórnarandstöðu komi þar inn ásamt aðilum vinnumarkaðar, Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar.

Í tengslum við þessa vinnu bind ég miklar vonir við að út úr henni geti komið að við getum bæði (Forseti hringir.) ... Ég verð að halda áfram hérna í seinna svari.