148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

skerðingar í lífeyriskerfinu.

[10:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir þessi svör. En króna á móti krónu skerðing kemur starfsgetumati ekkert við. Þetta eru gerólíkir hlutir, tengjast á engan hátt. Förum í starfsgetumatið, alveg frábært. En tökum krónu á móti krónu skerðinguna út strax. Afnemum hana. Það er vilji allra. Það eru 41 félag í Öryrkjabandalagi Íslands og ekki eitt einasta félag hefur nokkurn tíma tengt krónu á móti krónu skerðinguna við starfsgetumat. Það var gert hjá síðustu ríkisstjórn og það virðist lenska hjá þessari ríkisstjórn að tengja þetta saman. En þarna eru engin tengsl.

Ef ráðherra segir að það séu einhver tengsl þarna á milli bið ég hann að skýra það út fyrir mér. Vegna þess að króna á móti krónu skerðing snýst um að hafa í sig og á. Króna á móti krónu skerðing er mannréttindabrot. Það er verið að taka peninga af þeim sem síst skyldi. Fólki sem á ekki fyrir mat, á ekki fyrir lyfjum. (Forseti hringir.) Hvers lags ofbeldi er það? Ég segi bara: Skýrið út fyrir mér hver tengslin á milli krónu á móti krónu skerðingu og starfsgetumats eru.