148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

málefni hinsegin fólks.

[11:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. félags- og jafnréttisráðherra, með áherslu á hið síðarnefnda, út í málefni hinsegin fólks.

Þrátt fyrir að við stærum okkur af miklu umburðarlyndi hér á landi og góðri stöðu hinsegin fólks í samfélaginu almennt verður ekki undan því vikist að löggjöf okkar hefur engan veginn fylgt eftir samfélaginu. Við erum raunar langt á eftir nágrannalöndum okkar hvað það varðar. Ef við horfum annars vegar á stöðu okkar þegar kemur að kynjajafnrétti, þar sem við erum í efsta sæti, og svo stöðu okkar þegar kemur að réttindum hinsegin fólks, þar sem við erum í besta falli um miðja deild eða fyrir neðan miðja deild í Evrópu, er alveg ljóst að hér þarf að gera verulega bragarbót á.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. jafnréttisráðherra, þar sem málefni þessa hóps hafa verið á borði ráðuneytis sem hefur verið, ef ég man rétt, undir stjórn flokks hæstv. ráðherra þorra undanfarins aldarfjórðungs: Er von á einhverri bragarbót hér á af hálfu hæstv. ráðherra? Hvernig hyggst hann bæta stöðu hinsegin fólks þegar kemur að lagaumhverfinu? Hvernig hyggst hann lyfta stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stöðu þessa hóps? Ég vísa sérstaklega til þess að Samtökin '78 sinna mjög mikilvægu ráðgjafarstarfi við skjólstæðinga sína en njóta afskaplega lítils opinbers stuðnings til þess. Raunar er það svo að þegar við ætlum að bera okkur saman við nágrannalönd okkar skortir hér að minnsta kosti milljónatugi upp á framlög hins opinbera til þess að við komumst með tærnar þar sem nágrannaþjóðir okkar hafa hælana.

Þar gerði ég viljayfirlýsingu við samtökin á síðasta (Forseti hringir.) kjörtímabili. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst hann efna þá viljayfirlýsingu?