148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

málefni hinsegin fólks.

[11:06]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir og segja að það er ekki vilji til annars hjá ríkisstjórninni en að gera gangskör í þessum málum þannig að Ísland sé á pari við það besta í þessum efnum sem þekkist og þetta er eitt af forgangsverkefnum jafnréttismálaráðherra og jafnréttismálaráðuneytisins og er líka eitt af forgangsverkefnum sérstakrar ráðherranefndar um jafnréttismál sem forsætisráðherra hefur sett á fót og hefur verið til umræðu í ráðherranefnd um jafnréttismál oftar en einu sinni. Þetta ber þar af leiðandi þess merki að það er vilji til að vinna þetta ekki eingöngu í félags- og jafnréttismálaráðuneytinu, heldur að tengja saman ólíka málaflokka í þessu.

Það er einmitt þannig að þessi mál eru ekki bara unnin á lagasviði félags- og jafnréttismálaráðuneytisins, þetta tengist inn á önnur svið eins og ég sagði áðan, inn á heilbrigðisráðuneytið og fleiri aðila. Ætlunin hjá ríkisstjórninni er að gera gangskör í þessu. Ég þakka hvatninguna og (Forseti hringir.) stuðninginn væntanlega við þau mál sem koma fyrir þingið, hvort sem það eru þessi tvö sem hv. þingmaður nefndi eða önnur.