148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að óþreyjan var ekki fundin upp af núverandi stjórnarandstöðu. Mig minnir jafnvel að þingmaðurinn sem hér stendur hafi kannski lært hana af hæstv. ráðherra á síðasta kjörtímabili. En ég leggst alls ekki gegn öllum málum og alls ekki þessu. Ég er alveg sammála því að það þurfi að setja reglur um hluti. Það er örugglega ekki hægt að sýna bókstaflega fram á umfang skaðsemi eða skaðleysi þessarar vöru. Ég held að það velkist þó enginn í vafa um að hún er miklu betri og veldur miklu minni skaða en sú sem við höfum verið að neyta hingað til. Þess vegna eru sterk rök fyrir því að gera hana aðgengilegri en hina.

Ég hef ekki á móti því að reynt sé að girða fyrir að ungt fólk fari að nota rafrettur eða setja bann við því að höfða til þess sérstaklega. Það mætti gera víðar. Ég tók t.d. eftir því þegar ráðherraskipti voru hjá ráðherrum eftir myndun síðustu ríkisstjórnar þótti það voða flott þegar ráðherra gaf fyrrverandi ráðherra í nefið. Eigum við þá ekki að ganga alla leið og skoða þá hluti líka? En það er kannski á pari við laxveiði eða golf, að það má af því að það þykir fínna.

Ég held samt að við eigum í meðförum þingsins að gera „veipið“ að raunverulegum valkosti fyrir þá sem vilja nýta sér aðeins hollari lífsstíl þrátt fyrir allt.