148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú alveg efni í sérstök samskipti, annað hvort úr ræðustól Alþingis eða jafnvel í hliðarherbergjum, að ræða það hvernig maður lærir góða siði hér í þinginu og af hverjum og á hvaða tíma. Það er auðvitað um þetta eins og iðulega þegar við stöndum frammi fyrir því að innleiða Evrópureglur, að hluti af þeim umbúnaði er þeirrar gerðar að við „sitjum uppi með það“, hvort sem það er til góðs eða ekki. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, eins og hv. þingmaður, að hér sé um að ræða löggjöf sem er til góðs, kannski fyrst og fremst vegna þess að hún innleiðir ákveðna neytendavernd. Hér erum við að tala um öryggisstaðla, CE-merkingar o.s.frv., sem ætti að vera gleðiefni fyrir neytendur. Þá vitum við þeir sem neyta rafrettna og vilja fara þá leiðina geti frekar treyst því hvað er til sölu fyrir heilsu sína.

Hins vegar er það líka þannig, svo það sé sagt, eins og iðulega þegar við erum að innleiða Evrópulöggjöf, að hér eru þættir sem tekin er ákvörðun um að búa um með tilteknum hætti í þessu frumvarpi, til að mynda eftirlitsþátturinn, hvar hann á að vera. Við fáum ekki skýra leiðsögn um hvar hann á að vera. Niðurstaða okkar er sú að það sé Neytendastofa sem sjái um hann, vegna þess að hér sé um að ræða almenna neysluvöru. Lyfjastofnun gæti verið önnur leið, en við töldum það ekki vera bestu niðurstöðuna í þessu efni. Önnur lönd fara mismunandi leiðir í þessu. Það er eitt af því sem þingið þarf að fjalla um. Aðrir þættir lúta t.d. að því hvar má neyta vörunnar og hvar ekki. Þar hefur hvert land töluvert sjálfdæmi. Við leggjum til tiltölulega stíf mörk hvað það varðar. En það er líka þingsins að taka afstöðu (Forseti hringir.) til þess hvernig um það verður búið með sem bestum hætti.