148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við innleiðingu á EES-reglum er aðkoma okkar mun fyrr í ferlinu en þegar mál kemur inn á borð þingsins. Þá velti ég því fyrir mér hvort við höfum misst af tækifæri til að hafa áhrif fyrr í ferlinu hvað þetta varðar. Eða er einhver möguleiki á að hnika þarna til á einhvern hátt, sem væri kannski hægt að fara með til Evrópusambandsins hvað þetta varðar?

Hæstv. ráðherra kom inn á varúðina í frumvarpinu, það var í raun lítið varað við sígarettunum. Í þetta skipti virðist það vera svo að við séum ofurvarkár. Ég velti fyrir mér hvort að frumvarpið beri þess merki, og í rauninni líka viðbrögð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópusambandsins í kjölfarið, þ.e. að við séum í rauninni of varkár. Það er oft erfiðara að slaka á reglunum síðar meir en að setja hömlur strax í byrjun.

Að sjálfsögðu viljum við hafa heilbrigðissjónarmið, við viljum fara varlega með þau en þær rannsóknir sem gerðar hafa verið, t.d. í Bretlandi, hafa ekki staðfest þá skaðsemi sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafði áhyggjur af, þannig að þegar er verið að tala um að er ekkert vitað um skaðsemi eða skaðleysi er það ekki alveg nákvæmt. Ég hef áhyggjur að ekki sé tekið tillit til þess sem þó er vitað.