148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Jú, ég fagna auðvitað frumvörpum frá ríkisstjórninni, að sjálfsögðu, það er nú ekki um auðugan garð að gresja og sérstaklega ekki í stóru málunum. Við bíðum spennt eftir þeim.

Ég fagna vissulega þessu frumvarpi og ég fagna því að sett verði lög um þetta svið. Þetta er svona ný leið eða aðferð til að njóta fíknar með lágmarksskaða. Þetta er úrræði fyrir tóbaksreykingafólk en tóbak er einn mesti mannskaðafaraldur síðari tíma eins og við vitum. Það er því mjög mikilvægt að um þetta verði settar skynsamlegar reglur.

Ég tek undir áhyggjur margra notenda á þessum nýja sið vegna frumvarpsins og hvet ráðherra til að skoða þetta gaumgæfilega. Hvort hún sé bundin í báða skó vegna Evrópureglna þekki ég nú ekki, en minnst hefur verið á nokkur atriði hérna.

Það er þetta með stærðina á umbúnaðinum, þ.e. stærð áfyllingar sem er þá takmörkuð við 10 ml. Í dag skilst mér að það séu 60, jafnvel 100 ml. Það eru nú ekki stórar umbúðir og ég spyr: Hver er nauðsyn þess þarna að gera notendum erfiðara fyrir?

Varðandi tankana sjálfa er reiknað með að stærðin verði 2 ml. Hver er nauðsyn þess að minnka þá svona mikið? Í dag skilst mér að þeir séu 3,5–4 ml. Hver er nauðsyn á því að minnka þá? Á að gera fólki erfiðara fyrir að fara þessa leið til að njóta fíknarinnar á skaðminni hátt en að reykja tóbak í formi vindlinga eða á annan hátt.

Auðvitað bíðum við spennt eftir rannsóknum, nýjum rannsóknum á skaðsemi þessarar aðferðar við að njóta nikótíns, en rannsóknir sýna að þetta sé miklu skaðminna og þess vegna æskilegra og því auðvitað óæskilegra að binda þetta, múlbinda þetta í reglur og lög til að koma í veg fyrir að fólk geti farið þessa leið, valið þá leið umfram tóbaksreykingar. Ég bendi því hv. ráðherra á þessar hugmyndir og ég hvet líka neytendur, notendur þessa nýja siðar til að nota tækifærið þegar málið fer til nefndar og óskað verður eftir umsögnum að neytendur sendi inn athugasemdir sínar til þingsins.