148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp þar sem verið er að taka lagarammann utan um veip. Í þeirri umræðu langar mig að nefna sérstaklega hæstv. ráðherra heilbrigðismála, Svandísi Svavarsdóttur. Hún nálgast þetta sem ráðherra heilbrigðismála og segist þurfa að vera varkár, láta heilsu almennings njóta vafans og vísar þar í upplýsingar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Ég ætla fyrst í ræðu minni að nálgast þetta út frá lýðheilsu og hvernig þingið þarf að taka á þessum málum. Upplýsingar síðan þessi Evróputilskipun var skrifuð árið 2012, samþykkt 2014, hafa víst lítið sem ekkert breyst. Fjögur ár hafa liðið og margar rannsóknir komið fram sem sýna að skaðinn sem hlýst af því að veipa sé alla vega 95% minni, alla vega, en af því að reykja. Þetta eru upplýsingar sem við verðum að taka tillit til þegar við setjum síðan löggjöf á Alþingi, ef við ætlum að virða þetta lýðheilsumarkmið.

Annað sem við verðum að taka tillit til. Á grundvelli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar hefur þetta verið sett í Evrópu, og ráðherra segir að hún horfi til, og hefur fyrrverandi „cabinet director“, einhvers konar yfirstjórnandi í WHO, sem fór fyrir þeim hópi sem hefur verið að skoða veip og skaðsemi þess, orðið mikill baráttumaður gegn því að banna veip, er gegn því að setja þessar reglugerðir, er gegn afstöðu WHO í málinu og færir fyrir því ýmis rök og er tilbúinn að koma fyrir velferðarnefnd sem fær þetta mál til sín eftir að við höfum rætt það hér og leggja gögnin á borðið. Hvað hefur gerst síðan WHO tók afstöðu sína, þ.e. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin? Hvað hefur gerst síðan Evrópusambandið skrifaði tilskipun sína 2012 og frá því Evrópusambandið samþykkti þá tilskipun 2014? Hvað hefur gerst síðan þegar kemur að lýðheilsu og skaðsemi veips, miðað við tóbak?

Ef velferðarnefnd tekur ekkert tillit til þess þá tekur hún ekki tillit til lýðheilsusjónarmiða. Það sem rannsóknir sýna í dag, eins og ég nefndi, er að það er 95% skaðminna að veipa en að reykja tóbak og ráðherra vísaði til þess að á sínum tíma var ekki nein lagaumgjörð sett um tóbak og tóbaksframleiðendur hafi verið látnir njóta vafans. Það var ekkert sem kallast „substitute“ eða svona vara sem hægt var að skipta út fyrir tóbak í þessu tilviki þegar kemur að nikótíni. Núna aftur á móti vitum við um skaðsemi tóbaks, höfum sett lög um skaðsemi tóbaks af því að við vitum að það drepur 400 manns á ári á Íslandi. Það er hátt í 20% af öllum dauðsföllum á Íslandi. Við vitum það.

Ráðherra segir að við verðum sérstaklega að passa okkur samt sem áður með veipið, að við skulum ekki láta veipið njóta vafans, við skulum láta lýðheilsuna njóta vafans, geri ég þá ráð fyrir, en veipið er einmitt það sem fólk er að skipta yfir í, þ.e. úr tóbaksnotkun, sem við vitum að drepur 400 manns á ári, fólk er að skipta yfir í veipið sem rannsóknir sýna að er 95% skaðminna. Við verðum að horfa til þess, annað væri gríðarlega óábyrgt út frá lýðheilsulegu sjónarmiði, gríðarlega óábyrgt.

Velferðarnefnd verður því að taka tillit til þess og ég trúi að hún muni gera það. Svo getum við náttúrlega farið í sjálfræðisvinkilinn, þ.e. fólk á að hafa rétt á því sem frjálsir einstaklingar að innbyrða þá vöru sem skaðar það, jafnvel þótt það viti það. Við höfum áfengi, við höfum tóbak, en ef við ætlum að taka lýðheilsuvinkilinn þá er það gríðarlega óábyrgt að taka ekki tillit til allra þessara nýju upplýsinga sem fram hafa komið um mismuninn á skaðsemi tóbaks og veips. Við þurfum líka tölur um hvað margir hætta að reykja og hafa hætt að reykja og fært sig yfir í að veipa eins og staðan er í dag. Og hvernig það er að setja takmarkanir við veipnotkun, koma með alls konar hindranir, setja fólk út á gaddinn til að veipa frekar en að geta veipað inni hjá sér, þá er það líklegra til að reykja. Hvaða áhrif hefur það? Við þurfum að fá tölur um það af því að þar erum við að tala um mannslíf, við vitum að það getur kostað mannslíf.

Við verðum að taka tillit til þessa í velferðarnefnd og svo aftur í umræðu í þinginu og ég trúi að heilbrigðisráðherra hafi áhuga á slíkri umræðu og að slíkar upplýsingar komi fram — og hún jánkar því — og við tökum afstöðu á málefnalegum grunni hvað það varðar út frá lýðheilsusjónarmiðunum. Svo getum við í þinginu auðvitað bætt við frjálslyndu sjónarmiðunum líka.