148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[12:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ráðherra heilbrigðismála, Svandís Svavarsdóttir, er kannski að benda mér á að ekki sé bann við veipi. Mig grunar það. Kannski missti ég það út úr mér ásamt einhverjum fleiri atriðum, en það er samt bannað að veipa innan dyra samkvæmt frumvarpinu, er það ekki rétt? Já. Það er nú það sem ég vildi koma þá skýrt til skila. Það er það sem frumvarpið segir.

Það þýðir að þegar bannað er að veipa innan dyra er maður líklegri til að fara út til að svala nikótínfíkn sinni og við vitum reykingafólk er líklegra til að reykja en veipa. Að sjálfsögðu þurfum við tölur um það. Ég hef þær ekki. En þetta er það sem ég hef heyrt hjá hverjum og einum einasta sem er að skipta yfir.

Varðandi það hverju hægt er að breyta: Fyrir hvaða tíma þarf Ísland að samþykkja þessa tilskipun? Ef okkur sýnist vanta upplýsingar til að vera viss um að við séum ekki að setja hömlur á neyslu veips, eða neyslu nikótíns í gegnum veip í tilfelli fíkla sem eru að reyna að minnka við sig reykingar — því að þá erum við að tala um mannslíf og við verðum að fara mjög varlega í þeim efnum.

Það væri kannski hægt að fresta þessu, þ.e. ef þingið segir: Við getum ekki tekið ákvörðun um þetta, og vísa þessu aftur til ráðherra, hver er þá fresturinn til að þurfa að samþykkja tilskipunina? Og jafnvel eftir að fresturinn er liðinn, hversu langt er þar til við fáum á okkur dóm? Því að við erum alltaf að fresta EES-málum og fá á okkur dóm og það virðist ekki vera stórmál í íslenskri stjórnsýslu. Ef það varðar upplýsingar til að vita hvort við séum að setja hömlur á fólk við að minnka tóbaksnotkun verðum við að gera það mjög varlega. Það myndi kannski réttlæta að við frestuðum málinu áfram.