148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[12:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Úr því að við erum komin í skoðanaskipti vil ég biðja hv. þingmann að bregðast við mér í síðara andsvari sínu varðandi veipið innan dyra og kenningar hans um að ef veipari getur ekki veipað inni fari hann út og fái sér sígarettu. Hvaða gögn hefur þingmaðurinn til grundvallar þeirri afstöðu sinni? Eru til einhverjar rannsóknir á þessu beinlínis? Því að það var mjög afdráttarlaus fullyrðing í orðum hans. (JÞÓ: Það eru engin gögn um …) Einmitt. Það er mjög mikilvægt að það komi fram.

Hv. formaður velferðarnefndar talaði í ræðu sinni áðan sérstaklega um að að sjálfsögðu væri óásættanlegt að fólk veipaði hvar sem er, þ.e. að það væri alls staðar heimilt inni. Ég vil spyrja þingmanninn um hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um að þessar takmarkanir ættu að vera með öðrum hætti en lagt er til í frumvarpinu þar sem, eins og fram kom í máli mínu, tiltölulega stíf leið væri farin í frumvarpinu.

Varðandi EES-mál almennt. Það sannarlega þannig með þetta mál að við erum ekki komin í skömm með það, það er ekki svo. En það er spurning hvort það sé eftirsóknarvert að við lendum alltaf í skömm með mál áður en við ljúkum afgreiðslu þess frá þinginu. Það hefur verið til vansa fyrir okkur í íslenska þinginu að hér hefur verið mikill halli á innleiðingum EES-reglna og löggjafar. Það hefur verið áhyggjuefni almennt hversu mikið við höfum dregist aftur úr og hversu lítið mark við tökum á klukkunni og dagatalinu í þeim efnum að við eigum að fara að þessum EES-samningi sem við erum þátttakendur í. Það gildir um þessa löggjöf eins og annað. En eins og kom fram í svari mínu erum við ekki beinlínis komin í pressu með þetta mál.