148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[12:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þá kalla ég aftur eftir því: Hver er tímaramminn? Hvenær yrðum við komin í skömm? Það hlýtur að vera fastmótað fyrir hvaða tíma við þurfum að uppfylla þetta og hvenær skömmin kæmi þá. Ég vil fá svör við því.

Varðandi það að við séum ekki komin í skömm: Nei, og jafnvel þó að við værum það verðum við að átta okkur á hvað er hinum megin á vogarskálinni. Eitt er að vera í skömm við að uppfylla ekki EES-reglur á tilsettum tíma, hitt er hvort við séum búin að komast að þeirri afgerandi niðurstöðu um áhrif þessarar löggjafar á það að færri nikótínfíklar eða reykingafólk færi sig yfir í skaðminni úrræði eða úrræði sem við vitum að eru mjög skaðleg yfir í úrræði sem við höfum alla vega grunnrannsóknir um að séu minna skaðleg. Þá erum við raunverulega að tala um lýðheilsuna. Það er lýðheilsuvinkillinn sem ég er að brýna ráðherra með hvað þetta varðar.

Þetta er sú miðlunarleið á nikótíni sem er að verða mjög vinsæl. Það er alveg sjálfsagt að taka tillit til þessa og benda ungu fólki á það. Þegar fólk er með fíkniefni yfir höfuð er spurning hvort heimila eigi auglýsingar. Þótt ég sé mjög frjálslyndur er ég alveg tilbúinn að skoða það. Fíkniefni selja sig yfirleitt tiltölulega mikið sjálf, mann frá manni, sem er öflugasta markaðssetningin. Spurning hvort bæta eigi ofan á það einhvers konar heimildum. Ég skil algerlega þau sjónarmið. Ég veit ekki nákvæmlega hver heildaráhrifin af því yrðu en það er ekki það sem ég er að horfa til. Það sem ég er að horfa til er að ég hef ekki gögnin um hversu margir reykingamenn eru sendir út með veipið sitt í stað þess að veipa við skrifborðið sitt, ég hef þau ekki. Eins og ég sagði veit ég það ekki. En það er þetta sem við heyrum frá veipurum, eða reykingamönnum sem eru að skipta yfir í veip. Þá verðum við að vera viss um að við séum ekki að leggja stein í götu reykingafólks við að hætta að reykja með löggjöf hér. Það er það sem ég er að benda á.