148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[12:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins skýrar varðandi innleiðingarmálin, því að ég var ekki nákvæm í andsvari mínu áðan við þeirri spurningu hv. þingmanns, þá er það svo að þegar þessi ákvörðun verður tekin í sameiginlegu EES-nefndinni eigum við að vera búin að innleiða. Við erum háð ytri tímaramma í þessum efnum. Þess vegna get ég ekki nefnt tiltekna tímasetningu en þannig liggur þetta í tímalínunni.

Hvað varðar þetta samspil við reykingar annars vegar og það að hætta að nota tóbak, hvað þetta þvingi mann til að gera, forvarnaþáttinn og allt þetta, þá er þetta mjög flókið samspil. Í nýjasta Talnabrunni embættis landlæknis, sem líklega mun birtast á heimasíðu embættisins í næstu viku, hefur embættið tekið saman nýjar tölur um notkun rafrettna. Þar kemur fram að dagleg notkun á rafrettum meðal 18 ára og eldri mældist um 4% árið 2017, sem gerir um 8.000 manns. Svipað hlutfall, eða um 4%, notaði rafrettur sjaldnar en daglega. Þetta er aukning frá sambærilegum mælingum frá árinu 2016 þar sem tæplega 3% eða 6.000 manns notuðu rafrettur daglega. Þetta er breytingin milli ára.

Af þeim sem nota rafrettur reyktu 55% þeirra samhliða notkun rafrettna samkvæmt þessum gögnum. Þessi tala hefur lækkað milli ára og árið 2017 reyktu bara 40% þeirra sem notuðu rafrettur, sem er gleðilegt. Þannig að þetta hlutfall minnkar. En hlutfall þeirra sem hefur aldrei reykt en notar rafrettur hefur aukist og fer úr 7% upp í 12% milli ára. Það er sérstakt áhyggjuefni og varðar þennan forvarna- og fræðsluþátt sem við höfum aðeins náð að ræða hér, en þeir sem nota rafrettur og eru hættir að reykja fjölgar úr 38% upp í 48% sem er kannski það gleðilegasta í þessu öllu saman.

En ég árétta mikilvægi þess að þingnefndin (Forseti hringir.) taki þetta til umfjöllunar og að það verði gert á málefnalegum grunni.