148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[13:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ákveðið déjà vu sem fylgir því að standa hér og ræða þessi mál við hv. þm. Jón Gunnarsson. Við áttum nokkur samtöl um þetta í fyrra. Ég verð að segja að ég varð pínulítið hissa þegar ég sá þetta frumvarp á dagskránni þar sem mjög stutt er í sveitarstjórnarkosningar og ég gat ekki skilið orð hv. þingmanns öðruvísi en svo að það yrði að drífa málið í gegn, fara fljótt í gegnum nefnd og ekki dvelja við þinglega meðferð, sagði hv. þingmaður. Þó segir reyndar í greinargerðinni að frumvarpinu sé ekki ætlað að hafa áhrif á hvort sveitarfélög fjölgi fulltrúum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eður ei.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað það er sem liggur svona á og hvort hann kannist ekki við að það hafi verið víðtækt samráð við sveitarfélögin fyrir örfáum árum sem skilaði því fyrirkomulagi sem nú er um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa og hvort honum finnist það vönduð vinnubrögð að svo skömmu eftir slíkt víðtækt samráð eigi að keyra frumvarp í gegnum þingið sem taki það samráð algjörlega úr sambandi.