148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:02]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg góðra gjalda vert að ætla sér að auka frelsi sveitarfélaganna og ég held að ekki finnist neinn innan þingflokks Pírata alla vega sem væri andstæðingur þess. En mér finnst skjóta skökku við að vera að mála þetta frumvarp upp sem einhvers konar frelsismál þar sem bókstaflega er verið að takmarka hámarksfjölda sveitarstjórnarmanna í minni sveitarfélögum við sjö, sem mér finnst ganga svolítið gegn valfrelsi þeirra. Auk þess er verið að bjóða upp á það að þeir verði að lágmarki fimm sem býður upp á þann lýðræðishalla að það þurfi 20% atkvæða í kosningum til þess að einhver fái lýðræðislega kjörinn fulltrúa. Ég myndi ekki kalla þetta neina tiltekna lýðræðisást.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig í ósköpunum á þetta að kallast einhvers konar frelsi? Væri ekki nær og töluvert betri nálgun að hækka hámarksútsvarið til sveitarfélaganna til þess einmitt að þau hefðu efni á því að borga sveitarstjórnarfólki sínu betri laun? Væri það ekki til þess gert að skapa betri grundvöll fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna?