148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:04]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður Pírata leggur til að sveitarfélögunum verði gefnar auknar skattheimildir, þ.e. þau geti farið með útsvarið mun hærra en það er í dag. Við erum bara ekki sammála um það. Við teljum að þær heimildir sem eru í dag séu í fullu gildi og sveitarfélög geti lækkað útsvar. Það er reyndar frekar þróunin í þá átt að þau sveitarfélög sem hafa staðið vel að sínum rekstri — þetta á reyndar ekki við Reykjavíkurborg þar sem Píratar eru í sveitarstjórn og styðja meiri hluta, en í nágrannasveitarfélögunum þar sem Sjálfstæðismenn hafa lengi verið við stjórn, alveg sérstaklega, hefur tekist að lækka þau gjöld mjög almennt.

Það er grundvallarmunur á skoðunum okkar. Auðvitað er þetta augljóst frelsismál. Ég gef lítið fyrir það þegar talað er um að það þurfi 20% kosningarbærra manna í 2.000 manna sveitarfélagi til að koma inn manni ef það eru bara fimm fulltrúar. Ég held að það sé nú ekki þannig, en kannski (Forseti hringir.) þarf stærðfræðingurinn að skýra það betur út fyrir okkur, það kemur þá bara í ljós. En (Forseti hringir.) þetta gefur augaleið. Þetta er mikið frelsismál. Það er verið að færa valdið til íbúanna. Það er í mínum huga grundvallaratriði að sveitarstjórnarfulltrúar (Forseti hringir.) beri pólitíska ábyrgð á svona ákvörðun.