148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Mér þykir hv. þingmaður í meira lagi spaugsamur, en ég hef ekki sama húmor fyrir þessu og hann. Ég held að enginn sé á leiðinni heim. Svo er nú þannig að það eru allmargir sem hafa aldrei átt umrætt heimili, þar á meðal sá sem hér stendur, þannig að hann á erfitt með að komast heim í faðm Jóns Gunnarssonar.

Það er auðvitað skrýtin latína að fara með rangt mál þegar á að reyna að vinna traust og efla samstarf. Ég held að það fari einmitt þveröfugt ofan í menn þegar farið er með rangt mál þegar það lá algjörlega ljóst fyrir og þingmaðurinn, þáverandi ráðherra, vissi fullkomlega að þetta færi ekki í gegn með þessum hætti, en hann kemur samt upp og fullyrðir að það sé engin andstaða við málið.

Varðandi það hvort málið var komið of seint fram er eitt af því sem var lagt til við ráðherra á sínum tíma og hann taldi öll tormerki á, að í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar voru yfirvofandi myndum við taka málið aftur upp, með það í huga að það gæti hugsanlega tekið gildi fyrir kosningar þegar þær kæmu næst þar á eftir. Það var ekki léð máls á því.