148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:12]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé að hv. þingmanni er hugleikið hvernig mál skipuðust á síðasta ári í þessu, svona hártoganir fram og til baka, en auðvitað var skýring sem mér var gefin sú að Viðreisn myndi ætla að bjóða fram í borginni og teldi sig eiga meiri möguleika að ná inn fulltrúum ef þeim yrði fjölgað. Svo getum við auðvitað gengið langt í því, virðulegur forseti, að fjölga sveitarstjórnarfulltrúum eða fulltrúum hér á Alþingi þannig að hægt sé að ná til allra minnstu hópa sem geti haft áhrif og komið að sínu fólki í umræðunni. En einhvers staðar verða mörkin að liggja.

Aðalatriði í mínum huga er þetta: Frumvarpið þarf að afgreiðast núna vegna þess að það hefur áhrif á sveitarstjórnarkosningar hér í borginni, borgarstjórnarkosningarnar. Það er mjög mikilvægt að ekki sé verið að fjölga þar. Það hefur áður verið tekist á um þessi mál á þeim vettvangi. Það eru nokkuð mörg ár síðan. Það voru mjög skiptar skoðanir um það þá. Það var snúið af þeirri vegferð að fjölga fulltrúum. Ég tel að við ættum að grípa í taumana og færa þetta vald, þennan ákvörðunarrétt, til borgarinnar, kjörinna borgarfulltrúa, (Forseti hringir.) þannig að þeir geti ekki skákað í skjóli laga á Alþingi þegar kemur að þessu ágreiningsmáli (Forseti hringir.) sem mun reyna nú á í kosningum.