148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkur atriði. Hv. þingmaður ætti að þekkja fjármálastefnu eigin ríkisstjórnar þar sem sveitarstjórnarstigið kemur mun betur út en í síðustu fjármálastefnu. Það er aðallega vegna betri hags Reykjavíkurborgar. Bara til þess að hafa það á hreinu þá gengur það mál mjög vel.

Eftir samvinnuferli meðal sveitarstjórna á sveitarstjórnarstiginu og ríkisins er komin niðurstaða sem eru lög sem farið er eftir. Ef einhver vandkvæði eru á því kæmi frumkvæðið að því að breyta því frá sveitarstjórnunum, það fyndist mér augljóst. Píratar hafa t.d. lagt til að lækka ákveðna þröskulda í íbúalýðræði þannig að sveitarstjórnir geti hleypt íbúum nær því að koma að ákvörðunum hvað það varðar.

Áðan var kostnaður nefndur. Reykjavíkurborg hefur unnið allt málið út frá því að kostnaður við borgarfulltrúana hækki ekki af því að varaborgarfulltrúar hverfa, sem eru annars á launum. Það er búið að skipuleggja það allt þannig að ekki verði aukakostnaður. Ég sé því ekki að kostnaðarrökin haldi í neinu.