148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segist hafa höggvið eftir því að ég hafi nefnt að frumvarpið beindist að einu sveitarfélagi. Ég vona að hann hafi líka numið það að ég hafði á undan því þá vísun í ræðu flutningsmanns sem ég fór með og mér veitist ekki tími til að endurtaka í þessu andsvari mínu. Hv. flutningsmaður var ekki að tala um mörg önnur sveitarfélög en Reykjavík. Hann var ekki að tala um Súðavík eða Siglufjörð eða hvað hin ágætu sveitarfélög heita. Hv. flutningsmaður vísaði sérstaklega til þess að málið hefði verið lagt áður fram. Þess vegna þyrfti ekki eins vandaða vinnu við það núna. Ég treysti því að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason þekki það mál sem hv. þm. Jón Gunnarsson vísar til. Þar er augljóst að ekki er verið að tala um mörg sveitarfélög, mörkin eru einfaldlega það há. Það útskýrir þau orð mín. Síðan kom ég skilmerkilega inn á að það væri miðað við þessa töflu sem hv. þingmaður las hér upp og var gott að fá það nákvæmlega, það væru X margir fulltrúar á X marga íbúa.

En af því hv. þingmaður segist ekki skilja af hverju ríkisvaldið sé að skipta sér af ákvörðunum sveitarfélaga hvað varðar fjölda í sveitarstjórnum þá verð ég að lýsa yfir undrun minni með að hann sé meðflutningsmaður á þessu frumvarpi. Hér er ríkisvaldið beinlínis að skipta sér af ákvörðun sveitarfélaga um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa. Það á aðeins við sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa þegar kemur að hámarki þeirra, en ég treysti því að virðing hv. þingmanns fyrir ákvörðunarvaldi sveitarfélaga sé ekki bundin við það hvort sveitarfélög séu undir eða yfir 2.000 íbúum. Af hverju styður hv. þingmaður að ríkisvaldið skipti sér af ákvörðunum sveitarfélaga undir 2.000 íbúum en ekki yfir?