148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég styð þetta frumvarp og geri það áfram. Varðandi lágmarkið, þennan botn, þá er það auðvitað girðing fyrir íbúana, að það sé ekki verið að ákveða að hafa mjög marga fulltrúa í sveitarstjórn í mjög litlum sveitarfélögum. Það finnst mér eðlilegt.

Varðandi það að jafnvel væri æskilegt að fjölga sveitarstjórnarfulltrúum eins og kom fram í máli þingmanna áður og bent á að það væri ráð að hækka kannski útsvarsprósentur til þess að fulltrúar gætu verið fleiri þá held ég að það sé alls ekki almenn skoðun íbúa og almennings að fjölga eigi fulltrúum langt umfram það sem við erum að tala um hér, alls ekki. Við í Flokki fólksins teljum að það eigi að fara vel með almannafé og ég er alveg á móti því að það gæti verið þannig í mjög smáum sveitarfélögum, eins og við þekkjum kannski á Suðurlandi, að fulltrúarnir gætu jafnvel verið fleiri en sjö þegar íbúarnir eru kannski 500 eða 300. Það séu kannski 1–2% af íbúunum komin í sveitarstjórn.