148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvarið, eða ábendinguna, sem þetta var að miklu leyti. Þegar ég talaði um samráð og samkomulag var ég fyrst og fremst að vísa til andlags þessara laga, sem eru sveitarfélögin.

Við þau var haft náið samráð og niðurstaðan var heildarendurskoðun. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að síðan greiddu þingmenn hér ekki allir atkvæði með öllum greinum þess frumvarps. Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að á þeim tíma voru breytingarnar og talnataflan þannig að þetta snerist aðeins um eitt sveitarfélag. En sú er ekki raunin í dag, eða hvað? Eru ekki til sveitarfélög sem færst hafa upp um flokk og eiga núna samkvæmt þessum lögum að fjölga fulltrúum sínum? Mosfellsbær, ef ég man rétt, Garðabær, sem er búinn að fjölga samkvæmt þessari töflu, ef ég man það rétt. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef hann kýs að koma hér upp í annað andsvar.

Með þessari sátt og þessu samkomulagi er búið að fara í heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögum. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn er eitt af þeim atriðum, en það er mikilvægt atriði engu að síður. Þetta eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum. Mér finnast það ekki fagleg vinnubrögð að koma hér örfáum mánuðum fyrir kosningar og ætla að kippa þessu eina atriði úr sambandi úr heildarsamkomulaginu. Förum þá aftur í endurskoðun á sveitarstjórnarfulltrúum. Ef við viljum það, ef við teljum að sveitarfélögin hafi núna skipt um skoðun, því að það er það sem flutningsmenn þessa frumvarps gefa sér, þ.e. að nú vilji þau ekki hafa það ákvæði inni sem sátt náðist um, þurfum við þá ekki að fara í víðtækt samráð til að fá þá skoðun fram en ekki bara gefa okkur hana hér í ræðustól?