148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:50]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Ég neyðist eiginlega til að koma í ræðu um þetta mál. Það er frekar undarlegt hvernig það kemur fram. Ég þarf svo sem ekki að fara yfir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés enda er ég fullkomlega sammála honum í því að hérna er verið að leggja til að víðtæku samráðsferli verði fleygt út um gluggann og hlutum hagrætt með frekar miklu hraði rétt fyrir kosningar í þágu þess, að því er virðist, að beina ákveðinni breytingu í átt að Reykjavíkurborg. Þetta er samkvæmt hv. flutningsmanni málsins, Jóni Gunnarssyni, og kom fram í framsöguræðu hans, eitthvað sem er jafnvel vilji til að gera á grundvelli meirihlutavaldsins, sem felst í að flokkarnir sem koma að því að leggja málið fram hafa meiri hluta fyrir því á þinginu, þ.e. í staðinn fyrir samræður, í staðinn fyrir að hafa eðlileg samskipti, bæði í þinginu og við sveitarstjórnir og sveitarfélög sem þetta snýst um á, eins og svo oft áður hjá Sjálfstæðisflokknum, að reyna að knýja hlutina í gegn með ofbeldi.

Gott og vel. Þetta er engu að síður mál sem kemur hingað inn á okkar borð. Þá er um að gera að ræða það málefnalega. Og þá eru kannski fyrstu spurningarnar: Er þetta til þess gert að auka eða letja lýðræðislega þátttöku? Nú er það svo að samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna raðast sæti niður samkvæmt d'Hondt-reglu, og það er bara hið besta mál. En samkvæmt frumvarpinu skulu aðalmenn aldrei vera færri en fimm, sem er svona allt í lagi, fínt að hafa eitthvert lágmark. Þá er kannski allt í lagi að spyrja hvernig það lágmark sé valið. Ætla mætti að hér þýddi að lágmarki 20% atkvæða á bak við fyrsta sætið. En út frá því hvernig d'Hondt-regla virkar í reynd þarf annað sætið töluvert minna en 20% til. Þar af leiðandi gæti það orðið þannig að þetta sé til þess að styðja og styrkja stöðu þeirra flokka sem eru hvað stærstir enda er d'Hondt-regla þekkt fyrir að ýta undir styrkleika stórra flokka á kostnað minni flokka. Þá er kannski sá flokkur sem hefur verið sögulega stærstur víðast hvar í sveitarstjórnum auðvitað hlakkandi yfir að fá slíka niðurstöðu.

En svo er talað um að menn skuli ekki vera fleiri en sjö í þeim sveitarfélögum þar sem eru 2.000 íbúar eða færri. Þetta þykir mér frekar mikil handstýring af hálfu hv. flutningsmanna frumvarpsins. Ég get ekki í fljótu bragði ímyndað mér hvers vegna þetta ákvæði kemur fram, hvers vegna þetta er tekið fram, því að nú eru ekki mörg sveitarfélög sem eru það lítil. Þau eru reyndar þó nokkur, en hvers vegna skyldi eiga að takmarka sjálfsákvörðunarrétt þeirra sveitarfélaga?

Og þá fer ég að sjálfsögðu í það að bera saman við önnur lönd. Hér er ágætistafla sem kom fram í frumvarpi til laga sem var lagt fram á 138. þingi, 15. mál, þar sem var tekin saman tafla um meðalfjölda sveitarstjórnarmanna á sveitarfélag. Þar kemur fram að á Íslandi eru 6,6 sveitarstjórnarmenn að meðaltali á sveitarfélag. Þetta hefur að vísu eitthvað breyst, fjölgun hefur orðið í Garðabæ, að mér skilst, og kemur til með að hækka aðeins vegna væntra breytinga núna. En til samanburðar eru í Finnlandi að jafnaði 28,2 sveitarstjórnarmenn á sveitarfélag. Í Danmörku eru þeir 25,7 að jafnaði og í Noregi 30 að jafnaði. En enginn gerir betur en Svíþjóð á Norðurlöndunum sem er með 44 sveitarstjórnarmenn að jafnaði á sveitarfélag.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, vegna þess að ef ætla má að lýðræðisleg aðkoma almennings skipti máli hlýtur nálægð við kjörna fulltrúa að skipta máli, aðgengi fólks að því að geta rætt við fulltrúa sína og fyrir það fyrsta að fá sinn eigin kjörna fulltrúa í viðkomandi sveitarstjórn. Það hlýtur að skipta máli. Því að ef takmarkið er 20% til að koma sínum fyrsta manni að er náttúrlega mjög auðvelt að einn ef ekki tveir fimmtu íbúa í tilteknu sveitarfélagi fái hreinlega engan sveitarstjórnarmann.

Hvernig er samanburður einstakra sveitarfélaga hér miðað við Norðurlöndin? Reykjavík er með sína 15. Til stendur að fjölga þeim enda er það að loknu mjög víðtæku samráðsferli, sem einhverjir borgarfulltrúar, kannski aðallega í Sjálfstæðisflokknum, hafa eitthvað við að athuga. En hér eru 119.000 íbúar og 15 sveitarstjórnarmenn í dag. Ef við berum það saman við Stavanger í Noregi sem er með 122.000 íbúa, svona svipuð stærð, þá eru þar 67 sveitarstjórnarmenn. Þetta er bara frekar mikill munur. Þar eru meira að segja fleiri sveitarstjórnarmenn en þingmenn á Íslandi. Það þykir mér heldur gott.

Svo gætum við tekið minna sveitarfélag, heimabæ minn, Vestmannaeyjar, með 4.000 íbúa og sjö sveitarstjórnarmenn. Berum það saman við bæinn Træna í Noregi þar sem íbúarnir eru 480 talsins, sem sagt tíu sinnum færri en í Vestmannaeyjum. Þar eru 11 sveitarstjórnarmenn. Svo getum við borið þetta saman við Hafnarfjörð sem er með rúmlega 25.000 íbúa. Þar eru sjö sveitarstjórnarmenn. Berum saman við Utsira, einnig í Noregi, með 215 íbúa, þar eru 15 sveitarstjórnarmenn.

Þetta er gegnumgangandi hefð á íslensku sveitarstjórnarstigi að hafa tiltölulega fáa fulltrúa — flesta úr Sjálfstæðisflokknum, ég veit ekki hvort það er tilviljun eða ekki — og eins litla lýðræðislega þátttöku og hægt er. Hv. þm. Jón Gunnarsson talar um að þetta sé dýrt hobbí fyrir viðkomandi sveitarstjórnarmenn. Kannski væri það síður dýrt hobbí ef aðeins fleiri sæju um alla vinnuna. Því að þetta er töluverð vinna. Ég þekki sveitarstjórnarfólk sem leggur sig einmitt mjög mikið fram í starfi sínu. Og þetta er fullt starf, jafnvel þegar þetta er í rauninni hálft starf samkvæmt því hvernig greitt er fyrir, eða jafnvel minna.

Lýðræðisleg þátttaka samkvæmt frumvarpinu á að vera minni eða jafnvel svo til engin. Þetta vegur að mínu mati gegn sjálfsákvörðunarrétti þessara sveitarfélaga. En í ljósi þessa verður maður svolítið að velta fyrir sér hvar við gætum gert betur. Það er ekki nóg að gagnrýna svona frumvarp bara — ég trúi því alla vega að verðið, kostnaðurinn við að gagnrýna hluti sé að koma með betri tillögu. Þá verðum við að velta fyrir okkur framtíðarmöguleikum sveitarstjórnarstigsins. Við gætum talað um framtíðarmöguleika á auknu frelsi. Ég gæti t.d. séð fyrir mér að hér væri hægt að bæta þetta frumvarp töluvert mikið með því að fella burt þessa einu setningu, með leyfi forseta:

„Þar sem íbúar sveitarfélags eru færri en 2.000 skulu aðalmenn ekki vera fleiri en sjö.“

Fella þetta burt, strax orðið töluvert frjálslyndara og betra.

Við gætum líka talað um fjármál sveitarfélaganna. Eins og kom fram í fyrri ræðu minni um málið, eða í andsvari, eru til sveitarfélög á landinu sem er afskaplega þröngt sniðinn stakkur hvað varðar fjármál. Að hluta til gerir þetta að verkum að sveitarstjórnarmenn geta ekki þegið eðlileg laun fyrir vinnu sína, jafnvel er fjölgun þeirra vandamál fyrir sveitarfélögin. Þá er bara eðlilegt að við reynum að átta okkur á því hvar við getum gert betur.

Skuldastaða margra sveitarfélaga er mjög slæm. Hún hefur farið töluvert skánandi og Reykjavíkurborg er kannski fremst í flokki þar. En ástæða er til að ríkisstjórnin eigi gott samtal við sveitarfélögin og sveitarstjórnarstigið um hvernig við getum reynt að höggva á þá miklu skuldasöfnun sem hefur átt sér stað. Að hluta til er hún vegna hrunsins, að hluta til vegna annarra þátta, t.d. þegar grunnskólum var velt yfir á sveitarfélögin án þess að miklir peningar fylgdu, ef nokkrir, einhverjir komu en of seint. Við gætum jafnvel reynt að setja okkur það markmið hér á þinginu að gera viðeigandi breytingar á lögum sem snúa að sveitarstjórnarstiginu þannig að fjárhagur þeirra batni og úr verði ástand þar sem hægt er að fjölga bæjarfulltrúum eða sveitarstjórnarfulltrúum og bæta launakjör þeirra þannig að hægt sé að komast í snertingu við þá nálgun sem er til staðar annars staðar á Norðurlöndunum.

Þetta eru bara nokkrar hugleiðingar um þetta.

Alþingi hefur þegar öllu er á botninn hvolft ekki viljað búa sveitarfélögum þann styrk að þau geti staðist áföll, geti ráðið hag sínum sjálf nema að mjög takmörkuðu leyti. Öðru hverju kemur fram einhvers konar tillaga, yfirleitt í nafni frelsis, hernám þess orðs er orðið frekar hvimleitt. Þær tillögur líta kannski út fyrir að heita frelsi þetta, frelsi hitt, þegar maður skoðar greinargerð, en þegar maður skoðar raunveruleg áhrif þeirra tillagna eru þær ekki til neins annars en að takmarka rétt þeirra sem þurfa að sinna starfi sínu vel í þágu almennings, að takmarka rétt almennings sjálfs og gera eins vel og hægt er að gera í sveitarstjórnum landsins.