148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki meðflutningsmönnum tillögunnar neinar annarlegar hvatir. Ég skil vel að þær hugmyndir sem liggja þessu til grundvallar eru að hluta til góðra gjalda verðar. Það er auðvitað eitthvað sem við ættum flest að vera sammála um, að auka á frelsi sveitarfélaganna. Í raun þyrfti ekki að gera margar breytingar á frumvarpinu til að þetta yrði bara ágætisfrumvarp.

En þetta er svolítið skrýtið frumvarp í ljósi þess að 1. flutningsmaður þess er fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og lagði það þá fram sem hæstv. ráðherra. En það er ákveðin hefð fyrir að komi sambærileg mál fram aftur þá taki næsti ráðherra við því sé áhugi fyrir því. Ef enginn áhugi er fyrir því hjá samstarfsflokki hv. þingmanns, hvers vegna kemur þetta þá fram með stuðningi m.a. hv. þm. Willums Þórs Þórssonar? Getur verið að þetta sé í rauninni það vond hugmynd að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sé óviljugur til að flytja málið vegna þess að hann veit að þetta er ekki það gott mál?

Svo er hitt, hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um þetta sem sambærilegt við frumvarp sem kom fram, sem var, eins og kom fram í máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, allt annars eðlis. Það fær mig hreinlega til að spyrja: Er verið að reyna að búa til einhvers konar ranga trú hjá þingmönnum núna? Ég skil ekki ýmsa þætti í þessu.

Það er hið besta mál að reyna að bæta sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. (Forseti hringir.) Auðvitað eigum við að vinna saman að því.