148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:09]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þó svo að við séum sammála í prinsippinu um að auka eigi sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna finnst mér röð aðgerða skipta afskaplega miklu máli. Nú erum við með 5–7 sinnum færri sveitarstjórnarmenn á sveitarfélag en önnur Norðurlönd. Maður skyldi ætla að ef eitthvert eitt Norðurlandanna væri með umtalsvert fleiri sveitarstjórnarmenn en öll hin væri það kannski eitthvað til að skoða. En þar sem við erum með áberandi færri sveitarstjórnarfulltrúa en önnur Norðurlönd liggur vandamálið kannski hér.

Ef nálgast ætti fjöldann út frá því hvar þörfin sé mest ættum við auðvitað að byrja á að skoða hann út frá hvernig við lögum efnahagsmál, fjárhag sveitarfélaganna. Setja það í forgang. Þá myndast kannski aðstæður og ráðrúm til að sveitarfélögin geti fjölgað sínu fólki, tekið betur á lýðræðismálum, jafnvel stundað þá lýðræðisást sem ég veit að er til staðar hjá mörgum.

Þegar sveitarfélögin eru komin á miklu betri grundvöll getum við farið að opna algerlega á þetta. Ég er svo sem ekki að segja að við getum ekki gert það núna. Auðvitað er hv. þingmönnum frjálst að leggja fram hvaða frumvarp sem þeim sýnist, að vísu með þeim takmörkunum að það fari ekki fram hjá forseta þingsins og fái hans bessaleyfi. En það verður að vera forgangsatriðið að laga það sem mestu máli skiptir hverju sinni. Og þar eru fjármál sveitarfélaganna í hæsta forgangi, ekki fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa, a.m.k. ekki þannig að það þurfi að fækka þeim eða opna á heimild til þess að þeim sé fækkað svo mikið að lýðræðislegur halli stafi af.