148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mér fannst mér skylt að koma upp í þessu máli því að 1. flutningsmaður þess beindi orðum sínum í framsöguræðu sinni svo hlýlega til míns flokks, Viðreisnar, og taldi okkur hafa staðið í vegi fyrir þessu máli á síðasta ári. Ég verð reyndar að segja eins og er að mér finnst málið í þessari mynd strax bæði skýrara og einfaldara en það var þá. Ekki þar fyrir, það mál var afgreitt í ríkisstjórn sem ég sat í á síðasta ári. Ég gerði engar athugasemdir við það þá og hef engar athugasemdir við það nú heldur, nema þá helstar þessar, að mér finnst það betra svona. Þetta á auðvitað að vera sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga, hvað þau telja þörf á mörgum fulltrúum í sveitarstjórn.

Vissulega var það svo að mann renndi grun í að einhver pólitík kynni að búa að baki sem flokkur hv. flutningsmanns hygðist nýta sér í sveitarstjórnarkosningunum. Það er hið ágætasta mál ef þau vilja gera sér einhvern málatilbúnað úr því. Hins vegar er mikilvægt fyrir sveitarfélög að geta mannað bæði sveitarstjórn eða borgarstjórn eftir atvikum og þær fastanefndir sem þar starfa. Ég hef alveg tekið undir þau sjónarmið sem komið hafa fram, t.d. hvað Reykjavík varðar, að það felist ekki endilega í því kostnaðarauki fyrir borgina að fjölga borgarfulltrúum enda séu þeir þá jafnframt að manna stærri hluta fastanefnda borgarinnar en verið hefur, sem greitt er fyrir aukalega í dag eins og ég skil það.

Þetta mál finnst mér afskaplega skýrt og gott. Þetta er einfaldlega þá á forræði sveitarfélaganna að ákveða hver þörfin er.

En fyrst hv. flutningsmaður Jón Gunnarsson var eitthvað að hnýta í Viðreisn og frelsisást Viðreisnar í þessu máli get ég hughreyst hann með því að hún er alger og sönn í þessu sem öðrum málum. Það er kannski helsti munurinn — því að sami hv. þingmaður er gjarnan að „bjóða okkur heim“, eins og hann segir — að okkur er alvara með frelsinu. Við hendum þessum málum því ekki fram sem krúttlegum málum sem leyft er að dingla í þinginu en eru aldrei afgreidd, eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert í gegnum tíðina; flokkurinn sem stóð fyrir orðaleiknum „Báknið burt“ fyrir ekki svo löngu en virðist frekar aðhyllast „Báknið kjurt“ í seinni tíð.

Það þarf nefnilega líka stundum að klára þessi frelsismál, ekki tala bara um þau aftur og aftur ár eftir ár. Flokkur sem setið hefur í ríkisstjórn lungann úr undanförnum aldarfjórðungi þarf að geta hreykt sér af því að hafa einhvern tíma náð að koma þeim í gegnum atkvæðagreiðslu, ekki bara að hafa lagt þau fram aftur og aftur. Með jafn mikinn þingstyrk og flokkurinn hefur haft í gegnum tíðina er það ansi aumt að ná aldrei að ljúka þessum málum heldur.

En hver veit, kannski tekst okkur að ljúka nokkrum svona málum á þessu þingi. Við eigum eftir að fjalla um breytingar á þeim málum sem þetta ágæta frumvarp snýr að og fjalla betur um breytingar á mannanafnalögum og jafnvel áfengislöggjöf og fleiru. Það er aldrei að vita nema að við náum góðri samstöðu um að ljúka því í sameiningu, hvort sem er í stjórnarmeirihluta eða minni hluta.