148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:40]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í mínum huga fela sveitarstjórnarkosningar og kosningar til Alþingis í sér mikið lýðræði og mikið uppgjör við það sem liðið er og væntingar um það sem fram undan er. Við höfum fylgt þeirri meginreglu hér að þannig komi almenningur að því að velja hvaða áherslur verði lagðar í hinum ýmsu málaflokkum þegar horft er til lengri tíma.

Það eru síðan mögulegar leiðir til að kalla fram kosningar á sveitarstjórnarstigi og eins í þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál svo að íbúarnir taki leiðbeinandi ákvörðun fyrir bæði þing og sveitarstjórnir. Ég held að það sé í sjálfu sér af hinu góða. Við höfum oft rætt að full ástæða sé til að rýmka þær reglur. Í því tilliti hefur líka verið rætt um aðkomu og vald minni hluta á þinginu. Ég tel að við eigum að reyna að stíga ásættanleg skref í þeim efnum. Einhver niðurstaða var komin í það sem ekki allir voru sáttir við en flestir. Og við skulum halda áfram með þá vinnu. (Gripið fram í.)

Það þarf að reyna að koma í veg fyrir misnotkun á valdi, sem spurt er um, eins og hægt er. En það er augljóslega lýðræðislegt vald í landinu þegar meiri hluti er fylgjandi einhverjum málum. Uppgjör við það verður á fjögurra ára fresti í okkar fyrirkomulagi. Það er heilmikið lýðræði fólgið í því.

Ég fagna því að stuðningur er við málið og hugsanlega einhverjar breytingartillögur boðaðar. Við skulum bara taka þá umræðu en leggjast á eitt (Forseti hringir.) um að þær verði ekki lagðar fram til þess eins að tefja málið heldur búi sú alvara að baki að við ætlum að reyna að afgreiða það núna svo að þessi lög taki breytingum fyrir vorið.