148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að þingmaðurinn talar um fulltrúalýðræði, sem er sannarlega lýðræði, en krafan er orðin um beinni aðkomu almennings, ekki bara að því að kjósa sína fulltrúa heldur að ákvörðunum í mikilvægum málum, ákvörðunum sem hafa rík áhrif á íbúana. Þess vegna er krafan um íbúakosningar orðin háværari, eins og um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hv. þm. Jón Gunnarsson, flutningsmaður málsins, nefnir að það sé lýðræðislegt að sveitarstjórnirnar og meiri hlutinn taki þessar ákvarðanir. Ef þetta frumvarp nær fram að ganga án aðkomu íbúanna, án þess að íbúar geti stöðvað sveitarstjórnir í því, þýðir það að meiri hlutinn í sveitarstjórnunum getur hagað hlutum þannig að hann sé líklegri til að fá fleiri fulltrúa. Meiri hlutinn getur breytt reglunum þannig að hann fái fleiri fulltrúa — það er mjög andlýðræðislegt — ekki bara hlutfallslega heldur fleiri fulltrúa.

Þegar fjölgað var í stjórn RÚV, úr sjö í níu, fóru báðir nýju fulltrúarnir til meiri hlutans. Það er gríðarlega andlýðræðislegt. Ákvörðunarvaldið, að færa það, ég er sammála því. En við þurfum að passa að það sé ekki bara fært til sveitarstjórna sem geta misnotað það við að tryggja sér fleiri fulltrúa með því að kokka í reglunum, kokka í fjölda fulltrúa. Það gerum við með því að íbúarnir sjálfir geta sagt: Nei, takk. Við viljum ekki að þið breytið þessum reglum, við viljum hafa þetta svona.

Breytingartillaga Pírata — við erum byrjaðir að vinna hana og gott að hv. þm. Jón Gunnarsson kallar eftir breytingartillögum — mun hljóða þannig að ef sveitarstjórnarfulltrúar ætla að taka ákvörðun um að breyta fjölda fulltrúa í sveitarfélaginu þurfi að bera þá ákvörðun sjálfstætt undir íbúa í sveitarfélaginu. Þannig tryggjum við meira lýðræði, meiri aðkomu fólks að ákvarðanatöku um sín mál. Það verður farsælla fyrir okkur öll. (Forseti hringir.)

Mun þingmaðurinn styðja slíka tillögu?