148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan finnst mér mjög jákvætt að skoða þetta, að ganga jafnvel enn lengra í þessu. Við skulum fara yfir það. Það er ekki fordæmalaust að kosið sé um mál sem þetta. Tekist var á um þetta í borgarstjórnarkosningum fyrir nokkuð mörgum árum; þetta mál hafði örugglega mjög mikil áhrif á niðurstöðu kosninganna. Þannig yrði það auðvitað alltaf. Ef meiri hluti tekur ákvörðun á kjörtímabili um að fjölga eða fækka fulltrúum, í þessu tilfelli, ef við ræðum þetta mál, þá á sér auðvitað stað uppgjör í kosningum. Það er alveg hægt að ræða það og skoða hvort sérstaklega yrði spurt um það, þannig að niðurstaða yrði bindandi, hversu margir fulltrúarnir yrðu; það er sjálfsagt að ræða þetta og skoða.

Mér finnst samt sem áður liggja nokkuð í augum uppi að ákvarðanir sem þessar, sem eru umdeildari en margt annað meðal íbúanna, yrðu hluti af kosningamálum. Það eru fordæmi fyrir því eins og ég sagði áðan. Við skulum bara skoða þetta. Ég fagna því að umræðan er á þessu stigi, hvort menn nái að stíga frekari breytingar má ræða við þá fulltrúa sem til okkar koma út af þessu máli og sjá svo hverju fram vindur.

En ég legg áherslu á mikilvægi þess að ljúka þessu máli þannig að þessi lög taki gildi sem fyrst. Miðað við þann málflutning sem ég heyri frá hv. þingmönnum Pírata (Forseti hringir.) geri ég ráð fyrir að það verði þeirra áhersla vegna þess að uppgjörið um það verður á endanum hjá fólki í viðkomandi sveitarfélögum.