148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

fjárfestingar í rannsóknum og þróun.

191. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um fjárfestingar í rannsóknum og þróun, sem snýst um að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leita leiða til að auka hlutfall fjárfestinga í rannsóknum og þróun á Íslandi þannig að það verði hærra en 2,8% af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2020.

Sterk fylgni er milli fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun og hagvaxtar. Nýsköpun eykur fjölbreytni í atvinnulífinu, fjölgar störfum og hækkar meðaltekjur. Þau lönd sem hafa markað sér skýra stefnu um auknar fjárfestingar til rannsókna og þróunar hafa uppskorið mikinn vöxt. Hækkun fjárframlaga til þessa málaflokks jafnt og þétt næstu ár ætti að vera sjálfsagður hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að tryggja ágóða til framtíðar af yfirstandandi hagsveiflu.

Hægt er að efla nýsköpun og rannsóknir með auknum fjárveitingum til rannsókna og þróunar, með auknum skattaívilnunum og bættu skipulagi rannsóknar- og þróunarstyrkja. Fjárfestingarstigið fer einnig saman við sterkt rannsóknarumhverfi háskóla og sterka hvata fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem leggja áherslu á rannsóknir og þróun í starfi sínu.

Samkvæmt skýrslu OECD um aðalvísa í vísindum og tækni, sem birtist 7. febrúar 2017, námu fjárfestingar á Íslandi til rannsókna og þróunar 2,19% af vergri landsframleiðslu árið 2016. Hæsta fjárfestingarstigið samkvæmt gögnum OECD er 4,25% af vergri landsframleiðslu í Ísrael, en í Suður-Kóreu er það 4,23%, það er 3,49% í Japan, 3,26% í Svíþjóð, 3,07% í Austurríki, 2,96% í Danmörku, 2,90% í Finnlandi, 2,87% í Þýskalandi, og þannig fram eftir götunum. Lægsta stigið af þeim löndum sem ég hafði til samanburðar er 2,21% í Slóveníu.

Hlutfall framlaga til rannsókna og þróunar á Íslandi hefur farið hækkandi frá árinu 2013 en tölur fyrir árin 2008–2012 liggja ekki fyrir. Tölur frá árinu 2000 benda þó til þess að árið 2001 hafi hlutfallið náð hámarki eða 2,81%, en vísbendingar eru um að sú tala hafi verið ofáætluð á sínum tíma.

Nú fara mælingar fram samkvæmt Frascati-handbók OECD en þar er horft til nokkurra þátta, þ.e. til rannsókna og þróunar, nýbreytni, sköpunar, kerfisbundinnar vinnu og notkunarmöguleika. Þannig er t.d. hefðbundin eða reglubundin starfsemi þar sem engin greinanleg nýjung eða lausn á vandamálum er fyrir hendi ekki talin til rannsókna eða þróunar.

Forseti. Það er ekki hægt að ofmeta áhrif nýsköpunar og þróunar hagkerfa. Mikil er þörfin hér. Eins og ég sagði áðan þá er hlutfallið á Íslandi frekar lágt miðað við ansi mörg viðmiðunarlönd, nánast öll OECD-löndin. Það er mikil þörf á að auka hlutfallið. Íslenska hagkerfið hefur aðeins fjórar meginstoðir og eins og ég hef rætt áður þá er samanburðurinn á hlutfallslegri stærð einstakra efnahagslegra stoða hér við önnur lönd mjög sláandi. Flestir þekkja Spán til að mynda fyrst og fremst sem ferðaþjónusturíki, en meðan ferðaþjónustan er rúmlega 30% af vergri landsframleiðslu okkar á Íslandi er hún 16% af vergri landsframleiðslu á Spáni. Sömuleiðis skilar stærsta iðngrein Þýskalands, þ.e. bílaiðnaðurinn, aðeins 12,8% af útflutningstekjum landsins.

Fjölbreytnin er töluverð í flestum löndum. Auðvitað erum við lítið land og það hefur tekið tíma að byggja upp höfuðatvinnuvegi okkar sem þó eru orðnir ansi sterkir. En við þurfum að stuðla að svipaðri fjölbreytni hér. Það er ýmislegt gott að gerast í nýsköpunarmálum á Íslandi. Það eru flott nýsköpunarfyrirtæki í líftækni, hugbúnaðargeiranum, í þróun tækjabúnaðar fyrir iðnað, í þróun stoðhjálpartækja, í fjármálaþjónustu og fleira. En nýsköpun er ekki bara að ýta undir nýja atvinnuvegi heldur að stuðla að betri nýtingu á tækifærum og framþróun á aðferðum í þeim atvinnuvegum sem fyrir eru. Möguleikar í sjávarútvegi eru t.d. margræddir og að sumu leyti vel þekktir, en kannski að öðru leyti síður. Það eru rannsóknir í gangi meðal íslenskra aðila á nýjum veiðarfærum, skilvirkari framleiðsluaðferðum, betri nýtingu hráefnis og meiri verðmætasköpun alls staðar í virðiskeðjunni, sem er náttúrlega algjört grundvallaratriði fyrir áframhaldandi yfirburði íslensks sjávarútvegs á heimsvísu. Þá höfum við jafnframt flott fyrirtæki sem eru að þróa nýjar leiðir í markaðsþekkingu, ferðaþjónustu og þjónustuveitingu og fleira. Það er margt gott að gerast. En það þarf töluvert meira ef duga skal. Það má t.d. nefna að beinar erlendar fjárfestingar á Íslandi námu aðeins um 1.400 milljörðum kr. árið 2015, þ.e. allar fjárfestingar sem hafa verið gerðar samanlagt, ekki fjárfestingarnar á því ári. En þetta er tiltölulega lítil upphæð miðað við stærð hagkerfisins.

Þótt hagvöxtur á Íslandi sé almennt frekar mikill í augnablikinu er hann samkvæmt sumum tölum samt 0,2% minni en heimsmeðaltal hagvaxtar, þ.e. þetta er ekki tölfræðilega marktækur munur, en segir okkur samt það að hagvöxturinn á Íslandi fylgir fyrst og fremst almennri uppsveiflu í hagkerfum heimsins og við erum ekki endilega sér á báti. Það er náttúrlega hægt að mæla þetta á ýmsa vegu og mæliaðferðir stemma ekki alveg, þessu tengist að það vantar kannski að samræma mæliaðferðir á hagvexti. Þetta sýnir okkur að við þurfum að bæta okkur. Lönd hafa auðvitað farið mjög misjafnar leiðir að því.

Það er ekki á höndum ríkisins að geirnegla niður tiltekna prósentu af vergri landsframleiðslu sem fer í rannsóknir og þróun, þvert á móti. Auðvitað er þetta að miklu leyti í höndum þeirra fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróun. En það er augljóslega í þágu þjóðarhags þegar maður skoðar t.d. þann hagvöxt sem hefur orðið í Ísrael eftir að þessi stefna var tekin. Þar hefur tæknifyrirtækjum fjölgað, þar hefur útflutningsmöguleikum fjölgað, hagkerfi þeirra hefur lyfst upp töluvert, þannig að það er í þágu þjóðarhags að ráðherra fái það verkefni í hendur að skapa betri aðstæður. Hann hefur í rauninni þetta hlutverk, það er bókstaflega hlutverk nýsköpunarráðherra að efla nýsköpun í landinu. Það fer ekki milli mála. En við þurfum að skapa þær aðstæður að það verði meiri rannsóknir og meiri þróun. Hluti af því er að efla sjóði þannig að styrkirnir verði betri. Hluti af því er að búa til heppilegar skattaívilnanir eftir því sem við á. Hlutverkið er hreinlega að opna á vinnuumhverfið, að fækka hraðahindrunum gagnvart þessum fyrirtækjum, sprotafyrirtækjum sem eru að verða til. Ég hef áður minnst á það hvað það er yfirgengilega dýrt að stofna nýtt fyrirtæki á Íslandi. Það kostar um 140.000 kr. að stofna einkahlutafélag á Íslandi samanborið við um 12 pund í Bretlandi og 15 evrur í Þýskalandi. Þetta er ekki munur um einhver prósent, þetta er af allt annarri stærðargráðu.

Verkefnið sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á er að hafa þessa tölu, 2,8% af vergri landsframleiðslu, sem viðmiðun fyrir ráðherra, sem mælanlegan árangur sem væri hægt að skoða. Sömuleiðis stendur í tillögunni að ráðherra eigi að birta a.m.k. árlega upplýsingar um framgang mála þar til markmiðinu er náð. Það verkefni að auka rannsóknir og efla nýsköpun með þessum hætti sé ekki eitthvað sem við hummum fram af okkur heldur séum við sem þing með virkt eftirlit og ráðherra komi þessum upplýsingum á framfæri.

Þetta er í rauninni mjög hófleg tillaga. Við hefðum getað sett markið töluvert hærra. Það er að sjálfsögðu þingflokkur Pírata sem leggur þessa tillögu fram. Við hefðum getað stefnt á að ná t.d. Austurríki með 3% frekar en 2,8%, eða jafnvel að fara fram úr Ísrael, sem væri mjög flott markmið og kannski alveg sjálfsagt markmið í sjálfu sér að komast upp fyrir 4,25%. En við þurfum ekki að fara þangað alveg strax. Kannski komumst við þangað einhvern tímann. Kannski verðum við einhvern tímann leiðandi í heiminum í rannsóknum og þróun. En í dag er nóg að við komumst a.m.k. fram úr 2,8% og náum jafnvel því hámarki sem við höfðum áður, árið 2001. Þá höfum við skapað aðstæður þar sem möguleikar nýsköpunarfyrirtækja og sprotafyrirtækja og annarra slíkra sem starfa á Íslandi eru efld, eru töluvert betri. Það er hægt að fara mjög margar leiðir til þess.

Ég vona að þessi tillaga verði samþykkt og að hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra taki sér þetta verk fyrir hendur og klári það með glæsibrag.