148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

fjárfestingar í rannsóknum og þróun.

191. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt, það var mikil pressa á flesta flokka í aðdraganda síðustu kosninga að sammælast um að afnema þetta þak. Ef maður skoðar stærðirnar erum við lægst í Evrópu held ég ef Svíþjóð er undanskilin. Mér finnst tilfelli Svíþjóðar mjög áhugavert í þessu samhengi vegna þess að Svíar eru ekki með neinar endurgreiðslur, en samt er Svíþjóð það land sem skilar áberandi bestum niðurstöðum í nýsköpun og þróun í heiminum, er þar í samkeppni við til að mynda Sviss og reyndar nokkur önnur lönd. En aðferðin sem Svíar hafa notað er að endurgreiða ekki fyrir rannsóknir og þróun með beinum hætti heldur hafa aðrar tegundir af ívilnunum. Til að mynda er þar, eins og er reyndar gert á Íslandi, boðið upp á skattafslætti fyrir sérfræðinga sem flytja til landsins erlendis frá. Þeir afslættir eru töluvert hærri í Svíþjóð.

Ég er alveg opinn fyrir því að afnema þessi þök og ef það væri komið hér frumvarp um það frá hæstv. ráðherra þá hefði ég bara gaman af því að ýta á græna takkann, klára það. En ég vil samt að við skoðum aðrar leiðir og ekki endilega miða okkur við einn tiltekinn mælikvarða vegna þess að allir einstakir mælikvarðar geta verið gallaðir.

Í samtölum við fólk í nýsköpunarfyrirtækjum hafa komið fram hugmyndir um að fjölga t.d. alþjóðlega vottuðum skólum fyrir börn til þess að laða að fleiri alþjóðlega sérfræðinga, búa betur um atvinnuleyfi maka, endurskoða samsetningu samkeppnissjóða, þeim sé jafnvel fækkað, þeir sameinaðir og að sjálfsögðu aukið í þá og að við myndum efla nýsköpunarkennslu í grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum o.s.frv.

Það er margt sem við þurfum að gera. Enda snýst þessi tillaga kannski ekki (Forseti hringir.) bara um að festa 2,8% sem markmið heldur að ýta okkur af stað í rétta átt.