148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Flutningsmenn á þessari tillögu eru ásamt mér hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ólafur Þór Gunnarsson.

Efni tillögunnar sjálfrar er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.“

Ég ætla hér að gera nánar grein fyrir þessari tillögu, en samhljóða tillaga var lögð fram á 147. þingi, þá sem 45. mál. Hún er nú lögð fram aftur óbreytt en með lítillega breyttri greinargerð. Eins og ég mun koma betur að í máli mínu á eftir þá lýtur þessi breyting á greinargerðinni aðallega að því að það sem gerst hefur í millitíðinni, þ.e. frá því að þessi tillaga var lögð fram síðast, er að ICAN-samtökin, sem hafa dregið vagninn í þessu máli, hlutu á síðasta ári friðarverðlaun Nóbels. Það er auðvitað merkilegt og mikilvægt mál sem ég vildi koma inn í greinargerðina og þess vegna var því bætt við.

Hinn 7. júlí 2017 samþykktu 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samning um bann við kjarnorkuvopnum. Samningurinn tekur gildi þegar 50 ríki hafa undirritað og lögfest hann. Vonir standa til þess að þessi samningur muni með tímanum komast í hóp mikilvægustu afvopnunarsamninga þjóða heimsins og verði á pari við samninga sem kveða á um bann við efnavopnum, sýklavopnum og jarðsprengjum. Þetta er sem sagt gríðarlega mikilvægur samningur.

Það er til marks um mikilvægi þessa samkomulags að ICAN-samtökin, sem unnu ötullega að gerð samkomulagsins, hlutu friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári eins og ég nefndi áðan. Líkt og segir í rökstuðningi norsku Nóbelsnefndarinnar áttu samtökin stærstan þátt í að leiða saman þjóðir heims og undirbúa gerð þessa mikilvæga sáttmála. Á fimmta hundrað friðarhópar og félagasamtök víðs vegar um veröldina standa saman að þessum samtökum, ICAN.

Aðdragandi þess að skrifaður er samningur þess efnis að banna kjarnorkuvopn er langur. Sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna frá árinu 1968, sem yfirleitt er í daglegu tali kallaður NPT-samningurinn og 191 ríki er aðili að, hefur löngum verið talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði kjarnorkuvígbúnaðar. Sá samningur felur í sér bann við frekari útbreiðslu þessara háskalegu vopna en hann leggur jafnframt þá skyldur á herðar þeim ríkjum sem þegar búa yfir kjarnorkuvopnum að vinna að útrýmingu þeirra. Það hefur hins vegar lítið borið á efndum á þeim hluta samningsins. Kjarnorkusprengjum hefur að sönnu og sem betur fer fækkað, en þær hafa hins vegar einnig stækkað og orðið fullkomnari þannig að sprengimátturinn hefur stóraukist. Jafnframt verja flest kjarnorkuveldin svimandi háum upphæðum til þróunar nýrra og fullkomnari kjarnorkuvopna og hugmyndin um takmarkaða notkun slíkra vopna í almennum hernaði er því miður rædd af sífellt meiri alvöru. Það má í því sambandi nefna nýlega endurskoðaða kjarnorkuvopnastefnu Trump-stjórnarinnar í Washington, sem gerir ráð fyrir mun víðtækari beitingu kjarnorkuvopna en áður hefur verið rætt.

Það er mikilvægt að hafa það í huga að þegar í þessu samhengi er talað um minni og/eða taktískari vopn þá er engu að síður verið að ræða um sprengjur af þeirri stærð sem sprengdar voru yfir Hírósíma og Nagasaki.

Ég vil líka taka það fram að þó svo að hér sé sérstaklega minnst á stjórnina í Washington þá eru kjarnorkuveldin níu talsins. Þetta er því ekki bara mál sem snýr að Bandaríkjunum. Þetta snýr auðvitað að öllum þeim ríkjum sem eiga kjarnorkuvopn. Bandaríkin eru það ríki sem á flest vopnin, það ríki sem setur hvað mesta peninga í hergagnaframleiðslu, þess vegna er kannski eðlilegt að nefna þau alveg sérstaklega. En ég ítreka að auðvitað snýst þetta um alla þá sem ráða yfir kjarnorkuvopnum.

Andstæðingar kjarnorkuvopna hafa lengi varað við þessari þróun, þ.e. að annars vegar séu sprengjurnar að verða kraftmeiri og hins vegar sé aftur farið að ræða það að hægt sé að nota þær í hernaði. Bent hefur verið á að eftir því sem meiri orku og fjármunum er varið í þróun og framleiðslu vopna þá skapast meiri þekking sem aftur stuðlar að útbreiðslu vopnanna. Mannkynið hefur aldrei smíðað vopn sem það hefur svo ekki að lokum beitt.

Í þessu samhengi er kannski rétt að nefna Norður-Kóreu sem er dæmi um vanþróað ríki að mörgu leyti sem margir hefðu kannski talið að gæti ekki komið sér upp kjarnorkuvopnum en gat það engu að síður. Þar held ég að sé við hinar stóru kjarnorkuvopnaþjóðir að miklu leyti að sakast vegna þess að meira er unnið að rannsóknum, meira er verið að prófa af vopnunum og þeim mun meira af þekkingunni sáldrast út.

Það er í ljósi alls þessa sem hópur ríkja komst að þeirri niðurstöðu að alþjóðasamfélagið yrði að ganga lengra en gert hefur verið með fyrri afvopnunarsamningum og leiða í lög algjört bann við kjarnorkuvopnum þar sem fullreynt væri að kjarnorkuveldin myndu sjálf stuðla að útrýmingu þeirra innan gildandi sáttmála. Slíkur samningur myndi, líkt og t.d. var raunin með samninginn um bann við jarðsprengjum, byrja að frumkvæði þeirra ríkja sem ekki ráða yfir kjarnorkuvopnum nú en verða svo með tímanum almennur.

Ríkin sem leitt hafa baráttuna fyrir kjarnorkuvopnabanni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru víða í heiminum, en Evrópulöndin sem stóðu að samþykkt málsins voru Svíþjóð, Austurríki, Kýpur, Írland, Malta og Sviss. Illu heilli ákváðu nær öll aðildarríki NATO að sniðganga viðræðurnar um gerð sáttmálans, enda byggist hernaðarstefna NATO enn á því að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Það voru sem sagt 122 þjóðir sem greiddu atkvæði með því að gerður yrði sáttmáli um það að banna kjarnorkuvopn á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Eins og áður sagði mun sáttmálinn öðlast formlegt gildi sem einn af sáttmálum Sameinuðu þjóðanna þegar tvennt hefur gerst, annars vegar að í það minnsta 50 aðildarríki hafi undirritað samninginn og hins vegar að a.m.k. 50 ríki hafi fullgilt hann á þjóðþingum sínum. Staðan í dag er sú að fyrra skilyrðinu er náð, 56 ríki hafa skrifað undir sáttmálann í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og fimm ríki hafa nú þegar fullgilt hann á þjóðþingum sínum. Það munu vera ríkin Kúba, Gvæjana, Mexíkó, Tæland og Vatíkanið. Talið er að fjölmörg fleiri ríki muni fylgja í kjölfarið á næstunni.

Þau Evrópuríki sem hafa nú þegar skrifað undir í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna eru Írland, Austurríki og Liechtenstein. Eins og áður sagði hefur Vatíkanið bæði skrifað undir og fullgilt samninginn.

Ég vona að þingheimur taki vel í þetta mál enda um gríðarlega mikilvægan afvopnunarsáttmála að ræða sem gengur út á það að kjarnorkuvopn, þessi skelfilegu vopn sem geta hæglega tortímt öllu lífi á jörðunni, verði bönnuð.

Ég vona að við fáum góða umræðu um þetta mál og að við endum svo á því að fela ríkisstjórninni það að Ísland gerist aðili að samningnum. Okkar rödd skiptir máli í þessu samhengi, ekki bara vegna þess að við þurfum að komast upp í töluna 50 ríki sem hafa skrifað undir og svo fullgilt hann, heldur líka vegna þess að við viljum vera leiðandi afl þegar kemur að friðarmálum í heiminum. Ég tel að þetta sé eitt af því brýnasta sem við getum gert akkúrat núna, að verða aðilar að þessum sáttmála.

Ég legg til að aflokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. utanríkismálanefndar og til síðari umr.