148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég get ekki á mér setið að leggja nokkur orð í belg í þessari umræðu. Ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar og er því mjög hlynntur efni hennar og öllu því sem ég tel að stuðli að friði í heiminum.

Áður en ég fer í aðra sálma þá spurði hv. þm. Smári McCarthy hvernig þetta lagaði lýðræðishalla innan NATO. Ég deili skoðun með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur varðandi veru okkar í NATO, en ég fór að hugsa þegar ég hlustaði á áhugavert tal þessara tveggja hv. þingmanna áðan: Er samþykkt þessa samnings hjá NATO-ríkinu Íslandi ekki að einhverju leyti skref í þá átt að laga lýðræðishalla innan NATO? Er þar komin sjálfstæð stefna NATO-ríkisins Íslands þegar kemur að þessum málum? Ég hugsa að það væri alla vega skref í þá átt.

Mig langaði aðeins að tala um þessi mál. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi þegar ég var á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki seint á síðasta ári að fá að mæla fyrir svipaðri tillögu flokkahóps Vinstri grænna á Norðurlandaráðsþinginu. Það segir okkur að sú umræða er í gangi mjög víða, alveg óháð því hvort lönd eru innan eða utan NATO. Sú umræða er í gangi í mörgum þjóðríkjum, innan þjóðþinga og í alþjóðlegu samstarfi eins og Norðurlandaráði. Við fengum líka að eiga orðastað við Martti Ahtisaari, sem er einn af friðarverðlaunahöfum Nóbels og hefur mikið komið að friðarumleitunum einmitt um þessi mál, sem óskaði okkur mjög góðs gengis í þessari baráttu. Hann vissi að hún yrði erfið í ríkjandi heimsmynd og gagnvart þeim öflum sem sjá hag sínum best borgið við viðhalda henni, en hann óskaði okkur alls góðs í því efni.

Ég hef alltaf haft mjög einfalda afstöðu þegar kemur að kjarnorkuvopnum. Hún er að mörgu leyti mjög barnaleg en byggir á því að ekkert land eigi að búa yfir getu til að eyða jörðinni, það sé engum treystandi fyrir slíkri getu. Ef við lítum á þróun kjarnorkuvopnaframleiðslu og kjarnorkueignar hefur það snúist um að lönd komi sér upp kjarnorkuvopnum og vilji svo loka dyrunum á eftir sér. Sem sósíalisti á öllum sviðum hef ég alltaf átt erfitt með að skilja fólk sem getur réttlætt kjarnorkuvopnaeign eins ríkis en sagt að annað ríki geti ekki átt sömu vopn. Með því er ég ekki að segja að lausnin sé að öll ríki fái kjarnorkuvopn, heldur akkúrat þveröfugt, að við eigum einfaldlega að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að slík skaðræðistól séu til. Það er ekki hægt að treysta á að þau ríki eða þau lönd sem búa yfir þessum vopnum hugnist okkur.

Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Við vitum ekki hvernig þróunin verður í stjórnkerfum landa. Ég er menntaður sagnfræðingur og sagan er risastórt samansafn af ríkjum sem fólk hélt að myndi lifa öldum og árþúsundum saman eftir þeirri heimsmynd sem fólk bjó við á hverjum tíma. Svo er ekki. Ríki rísa og hníga og við vitum ekkert hvað um þau verður. Við vitum hins vegar að kjarnorkuvopn eru stórskaðleg og geta ógnað allri tilvist okkar á jörðinni. Ég ber einfaldlega ekki svo mikið traust til neins ríkiskerfis, neinna manneskja, til að þau geti vélað um slíkt svo vel fari.

Við þekkjum dæmi úr sögunni þar sem nánast hefur komið til beitingar kjarnorkuvopna. Við horfum fram á það núna að fólk ræðir í alvöru um að beita kjarnorkuvopnum sem lið í átökum á milli þjóða og ríkja. Þetta er því mjög mikilvæg tillaga og sá samningur, ICAN, sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, lýsti svo vel áðan er eiginlega aldrei mikilvægari en nú.

Óháð því hvað verður um þessa tillögu, auðvitað vona ég innilega að hún verði að veruleika, langar mig að hvetja til þess að hver og einn hv. þingmaður kynni sér samning þann sem ICAN hefur verið að berjast fyrir, af því að á vettvangi ICAN getur hver og einn þingmaður lýst sig sammála eða skuldbundinn og skrifað undir. Við þurfum því ekki endilega að treysta á að við sem ein heild getum hreyft hlutina í rétta átt, hvað þá að við getum gert það innan einhvers alþjóðasambandsins eða samstarfsins og NATO, heldur getum við, hvert og eitt, lagt okkar af mörkum með því að skrifa undir þessa yfirlýsingu.

Svo vil ég minna á, og við munum kannski ræða það þegar umræða verður um aðrar tillögur sem lagðar hafa verið fram, t.d. um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum, að í samþykktri þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er kveðið á um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Það er í raun opinber stefna Íslands um að hér skuli aldrei vera kjarnorkuvopn. Af hverju ættum við að vilja að það sem við viljum ekki hafa hjá okkur sé hjá einhverjum öðrum? Ég vona að sem flestir hv. þingmenn geti lagt lóð sín á þær vogarskálar að gera heiminn að friðvænlegri stað.