148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langaði til þess að bæta aðeins inn í þessa umræðu, vegna þess að hún er mjög góð og mikilvæg, að það er ekki endilega nauðsynlegt að vera í andstöðu við NATO til þess að vera í andstöðu við kjarnorkuvopnaeign NATO. Ég er eiginlega þannig friðarsinni að ég myndi gjarnan vilja að við þyrftum ekki á NATO eða neinu slíku að halda og að heimurinn byggi við fullkominn frið. En ég er ekki búinn að sjá nægilega mikinn frið í nægilega langan tíma til þess að ég treysti algjörlega á að friðurinn komi bara með því að einhver tiltekinn hluti heimsins afvopnist með öllu. Ég samþykki að vissu leyti veru Íslands í varnarbandalagi, í það minnsta á meðan slíkt friðarástand er ekki komið á. Þar liggur einmitt vandamálið, að NATO var kannski á einhverjum tímapunkti varnarbandalag, og kallast það vissulega í stofnskrá sinni, en hefur aldrei verið það í reynd og hefur ítrekað í gegnum tíðina beitt sér fyrir árásarhernaði á ótrúlegustu stöðum. Það er ákveðin hefð sem leggja þarf af hið snarasta. Það er nokkuð sem Ísland á að beita sér mjög ákaft fyrir að verði gert. Sömuleiðis er það til vitnis um að Ísland hefur í gegnum tíðina ekki gert nógu mikið til þess að draga línu í sandinn við að NATO skuli vera varnarbandalag sem snúist um að verja þau lönd sem eru aðilar að því, en ekki bandalag sem snýst um að verja hagsmuni þeirra landa með árásarhernaði þar sem heppilegt er hverju sinni.

Við eigum að draga þessa línu. Og við eigum að vera afskaplega skýr. Til þess að geta dregið mörk þurfum við að heimta lýðræðislegar umbætur í NATO. Við þurfum að heimta töluvert meira gagnsæi. Við þurfum að heimta að það séu þannig starfshættir við lýði að ekki sé verið að beita t.d. klasasprengjum og jarðsprengjum, svo ekki sé talað um kjarnorkuvopn á nokkurn hátt nokkru sinni, og að þau vopn sem talin eru óásættanleg og ógeðsleg í heiminum skuli vera upprætt.

Fyrir vikið samþykki ég ekki þau rök sem komið hafa fram um að stuðningur við NATO feli í sér andstöðu við kjarnorkuvopnabann. Það er ekki þannig að lýðræðisríki þurfi einhvern veginn að afsala sér rétti til þess að vera á móti ákveðnum tegundum vopna þegar þau ganga inn í varnarbandalag, þvert á móti.

Það má líka segja að það sé ekki endilega þannig að stuðningur við kjarnorkuvopnabann feli endilega í sér þá kröfu að NATO-ríkin verði fyrstu ríkin til þess að afvopnast. Það er miklu meiri þörf á því að Norður-Kórea afvopnist. Það er land sem ekki hefur sýnt mikinn samstarfsvilja þegar kemur að því að reyna að minnka kjarnorkuvá. Sömuleiðis mætti tala um Indland og Pakistan. Og svo getum við líka talað um Rússland, Bandaríkin og fleiri lönd. Auðvitað eiga þau öll að afvopnast með tíð og tíma. Og auðvitað mun það taka tíma.

En bannið opnar fyrst og fremst á ákveðna möguleika, t.d. að við bönnum fyrst kóbaltvopn og nifteindasprengjur, að við setjum ákveðnar takmarkanir á stærð strax í upphafi, að minnka umfangið sem allra mest. Það hefur vissulega verið gert að hluta til með START-samningnum á sínum tíma og þess háttar.

NATO verður að sætta sig við að við á þinginu, alla vega mörg okkar, heimtum frið og heimtum að friði sé viðhaldið eftir því sem hægt er. Ég er ekki sérstakur talsmaður þess að við verðum alltaf í NATO. Ég myndi gjarnan vilja að við myndum leggja niður NATO hið snarasta, en það er háð því að við náum áður ákveðnum markmiðum hvað varðar heimsfrið.

Þetta er sú hugmyndafræði í alþjóðasamskiptum sem kallast realismi, ég veit ekki alveg af hverju það fær það nafn frekar en aðrar kenningar. En ég held að allar hugmyndir sem kunna að vera hjá ríkisstjórninni eða fyrri ríkisstjórnum, svo ekki sé talað um ríkisstjórnir annarra NATO-ríkja, um að kjarnorkubann sé ósamrýmanlegt aðild NATO, séu í besta lagi fyrirsláttur, kjaftæði, vegna þess að við getum bannað það. Við höfum fordæmi. Við höfum klasasprengubannið. Við höfum jarðsprengjubannið og við höfum efnavopnabannið og fleira þó svo að NATO-ríki hafi reyndar ekki komið sér upp efnavopnum. En þessi fordæmi eru til. Við eigum að nýta þau. Við eigum að vera mjög hörð á því að þar sem þetta hefur verið gert áður getum við gert þetta núna. Þar sem þetta er varnarbandalag á ekki að bjóða upp á neins konar árásarvopn eða vopn sem eru fyrst og fremst ætluð í árásartilgangi.

Ég býst við að málið fari til utanríkismálanefndar og mun gera mitt besta til að greiða leið þess þar í gegn eins hratt og mögulegt er.