148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

málefni forstjóra Barnaverndarstofu.

[15:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og hefur hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra gefið út stuðningsyfirlýsingu við framboð Braga Guðbrandssonar forstjóra Barnaverndarstofu til þessarar nefndar.

Nú hefur komið í ljós að hv. þingmaður og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra Þorsteinn Víglundsson setti á fót rannsókn innan ráðuneytisins í kjölfar kvartana sem bárust frá tveimur barnaverndarnefndum á höfuðborgarsvæðinu yfir störfum Braga Guðbrandssonar. Það síðasta sem fréttist af málinu var athugasemd á vef ráðuneytisins þar sem Barnaverndarstofu er veittur frestur til 14. desember til að svara þessum kvörtunum. Síðan þá hefur ekkert heyrst.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Í ljósi þess að málalyktir þessarar rannsóknar hafa ekki verið tilkynntar opinberlega, og þar af leiðandi er ekki ljóst hvort forstjóri Barnaverndarstofu nýtur fulls trausts til að gegna þeirri stöðu sem nú er sótt um innan Sameinuðu þjóðanna, hefði ekki verið skynsamlegra að birta niðurstöður rannsóknarinnar til að taka af allan vafa um að allir aðilar þessa máls hafi gengið sáttir frá borði, eins og hæstv. ráðherra hélt fram í samtali við fjölmiðla á dögunum? Hver var niðurstaða rannsóknarinnar? Hvers vegna er hún ekki birt? Ég tek fram að ég sá rétt í þessu að upplýsingafulltrúi velferðarráðuneytisins hefur sagt fjölmiðlum að hún eigi von á að niðurstaða verði birt í dag. Sem er mjög jákvætt. En hefði ekki verið skynsamlegra að niðurstaðan lægi fyrir áður en ákveðið var með framboð Braga í þessa nefnd? Hvenær lá sú niðurstaða fyrir og hvers vegna var hún ekki birt fyrr?