148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

barnaverndarmál.

[15:35]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og segi aftur það sem ég sagði áðan, niðurstaða könnunar ráðuneytisins er sú að forstjóri Barnaverndarstofu, eða Barnaverndarstofa, hafi ekki brotið af sér í starfi. Niðurstaðan er jafnframt sú að ráðast þurfi í breytingar á ákveðnum málum sem snúa að barnaverndarnefnd. Þegar báðir aðilar voru búnir að senda inn upplýsingar sínar, og við getum farið yfir það allt í velferðarnefnd, ég held að væri gríðarlega gott að gera það, ákvað ég að funda bæði með Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndunum til þess að reyna að átta mig betur á því hvernig hægt væri að byggja upp traust í þessum málaflokki.

Niðurstaðan úr þeim samtölum var sú að ráðast þyrfti í ákveðnar breytingar og að menn væru tilbúnir til þess að koma að borðinu varðandi það sem sneri að því. Ég veit ekki betur en að þegar sú niðurstaða var kynnt fyrir barnaverndarnefndum á föstudaginn hafi verið gríðarleg ánægja með þær málalyktir fyrir málaflokkinn, að við værum að hefjast handa við þau atriði sem snúa m.a. að því að setja formlegri samskiptahætti milli aðila, ekki bara milli barnaverndarnefndar og Barnaverndarstofu, heldur líka milli Barnaverndarstofu og annarra aðila, barnaverndarnefnda og annarra aðila. Það er sú vinna sem menn eru sammála um að ráðast í. Verið er að undirbúa að boða þá á fund sem koma að stærstu barnaverndarnefndunum, að Barnaverndarstofu, og fleiri aðila, til þess að koma þessari vinnu af stað.

Ég held að það sé gríðarlega jákvætt að við séum þá komin á þann stað að þeir sem eru í stafni í þessum málaflokki, hvort sem það eru barnaverndarnefndir eða Barnaverndarstofa, eru að hefja vinnu og samstarf um að gera breytingar. Ég held að þess vegna sé mikilvægt að velferðarnefnd setji sig inn í það, vegna þess að það kann vel að vera að út úr þeim breytingum og því samtali komi eitthvað sem löggjafinn þarf að bregðast við. Kannski vilja menn gera það fljótt (Forseti hringir.) eða tengja það einhverri stærri endurskoðun sem einnig er verið að setja af stað.