148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

barnaverndarmál.

[15:39]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála þeirri niðurstöðu sem ráðuneytið kemst að, að ekki hafi átt sér stað brot þarna. En ég er líka sammála þeirri niðurstöðu að ráðast þurfi í ákveðnar breytingar. Ég sé eiginlega ekki hvert vandamálið er þegar við erum búin að koma því á að barnaverndarnefndirnar og Barnaverndarstofa eru tilbúin að setjast niður og ræða málin. Við erum að fara að ræða breytingar með ráðuneytinu. Það er þá alla vega búið að stíga skref í rétta átt. Ég er rosalega hissa á því að hv. þingmaður skuli ekki bara fagna því að málaflokkurinn sé þó á leiðinni í þá átt.

Síðan varðandi framboð Braga. Ég held að Bragi Guðbrandsson sé frambærilegur kandídat til framboðs til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Það hef ég rakið hér fyrr í dag. Hluti af því samkomulagi sem gert er ráð fyrir þegar hann flyst núna inn í ráðuneyti, er að hann sinni þar sérverkefnum, og síðan, nái hann kjöri í barnaréttarnefndina, segi hann af sér sem forsvarsmaður Barnaverndarstofu. (Forseti hringir.) Ég held að það sé eitt af því sem gott væri að ræða í velferðarnefnd á miðvikudaginn og mun ekkert skorta á það. Ég hlakka til þess fundar.