148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[15:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Nú er það svo að hér í þessum sölum og raunar utan þeirra líka tökumst við stjórnmálamenn stundum hart á, deilum hvert á annað fyrir orð og athafnir, erum ósammála um stjórnmálaskoðanir og stjórnmálastefnur og höfum líka athugasemdir við það hvernig við rækjum störf okkar. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst farið út fyrir mörk þegar þingmenn á opinberum vettvangi væna aðra þingmenn um refsiverðan verknað án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því, eru með ásakanir um að framin hafi verið saknæm og refsiverð brot, brot á almennum hegningarlögum, og segja, af því að þá sjálfa grunar eitthvað, að fyrir hendi sé rökstuddur grunur.

Nú er það svo að rökstuddur grunur hefur ákveðna merkingu í sakamálaréttarfari. Ég verð að segja að ummæli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur á opinberum vettvangi í gær fóru að mínu mati gersamlega út fyrir öll mörk (Forseti hringir.) í þessu samhengi. Ég vænti þess að á vettvangi forsætisnefndar þingsins verði þetta rætt með einhverjum hætti (Forseti hringir.) þó að þingmenn séu auðvitað fyrst og fremst ábyrgir orða sinna.