148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[15:49]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég má til með að svara þessum ávirðingum þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Mig langar kannski að leggja það alveg skýrt fram hvað ég sagði í Silfrinu í gær, svo það sé á hreinu. Ég ásakaði ekki nokkurn mann um lögbrot. Ég sagði að það væri rökstuddur grunur til að hefja rannsókn á því hvort brot hefði átt sér stað. Lögfræðingar Sjálfstæðisflokksins sem margir hverjir hafa haft sem hæst í að gagnrýna þessi ummæli mín ættu að vita nákvæmlega sjálfir að það er allt annað mál en að segja að glæpur hafi átt sér stað.

Svo vil ég segja annað að lokum: Þó að rökstuddur grunur sé í vissum tilfellum lögfræðilegt hugtak tilheyrir það ekki lögfræðinni. Það er almenn skynsemi að tala um að það sé rökstuddur grunur fyrir því að hin ýmsu brot hafi átt sér stað hérna. Ég er ekki lögreglan, ég er ekki að tala fyrir hönd lögreglu þegar ég segi að það sé rökstuddur grunur til að hefja rannsókn á lögbrotum. Ég er ekki lögreglan. Ég er ekki að segja það í þeim skilningi. (Forseti hringir.) Ég er bara að tala sem venjuleg manneskja sem talar við venjulegt fólk án þess að ætla að ræna það skynsamlegu orðfæri.