148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hafði svo gaman af þessu innleggi hv. þingmanns að ég hreinlega gleymdi mér í sætinu. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu. Ég hef lagt áherslu á að takast á við þær áskoranir sem tengjast læsi og ráðast í aðgerðir þar að lútandi.

Það er mikilvægt að við horfum til stöðunnar eins og hún er. Niðurstöður úr PISA-rannsókninni 2015 sýna að frammistaða íslenskra 15 ára barna sé lakari en árið 2012. Ísland er nú neðst Norðurlanda í lesskilningi en var um miðjan hóp árið 2000. Fjölgað hefur í lægri hæfniþrepum og fækkað á þeim efri. Þetta er svipað hlutfall og hefur verið frá árinu 2006. Hærra hlutfall drengja er á lægri hæfniþrepum en í OECD-löndunum almennt og lesskilningur barna með annað móðurmál en íslensku er lakari en þeirra sem hafa íslensku að móðurmáli. Þróunin er þó svipuð hjá báðum hópum.

Þetta er einfaldlega grafalvarleg staða. Þessi þróun hefur verið að eiga sér stað í nokkurn tíma. Það er auðvitað rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns sem hóf þessa umræðu að við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun. Ég vil þó taka fram að skjávæðing hefur líka átt sér stað á hinum Norðurlöndunum og í öðrum OECD-ríkjum. Við þurfum að leita að einhverju öðru held ég en að horfa bara til hennar.

Virðulegi forseti. Unnið hefur verið að umbótum er tengjast því hvernig efla megi lesskilning frá árinu 2014. Það er búið að fara í markvissar aðgerðir. Sjónum er beint að því hvaða stoðir íslensks menntakerfis þurfi að styrkja ásamt því hvaða leiðir séu bestar til að veita nemendum úrvalsmenntun á Íslandi. Hluti af aðgerðaáætluninni er þjóðarsáttmáli um læsi. Það verkefni fór af stað haustið 2015 og er samstarfsverkefni fulltrúa allra sveitarfélaga á landinu og samtakanna Heimilis og skóla.

Menntamálastofnun var falin framkvæmd verkefnisins. Læsisráðgjafar voru ráðnir til stofnunarinnar og hafa verið starfandi í tvö og hálft ár. Strax var hafist handa við að búa til mælitæki til að meta læsiskunnáttu og framvindu nemenda í lesfimi, lesskilningi, orðaforða, stafsetningu og ritun til að skima eftir lestrarerfiðleikum. Ráðgjöf og fræðsla Menntamálastofnunar hefur verið með áherslu á áætlanagerð, gerð læsisstefnu, grunnþætti læsis, íslensku sem annað tungumál, nýtingu tölulegra gagna, samstarf milli skólastiga, samstarf við foreldra og læsi í leikskóla.

Ég tel að öll þessi vinna sem nú þegar er farin af stað muni skila árangri. Hins vegar er þetta risavaxið samfélagslegt verkefni.

Virðulegi forseti. Til þess að efla læsi á Íslandi er nauðsynlegt að allir sem koma að mótun menntastefnu í landinu vinni saman. Því boðaði ég nýlega helstu hagsmunaaðila á grunnskólastiginu til samráðsfundar til að ræða samstarf um hvernig við ættum að kynna og undirbúa framkvæmd næstu PISA-rannsóknar árið 2018. Ég ræddi mikilvægi þess að hvetja alla nemendur til að takast á við PISA-könnunina með þannig hugarfari að allir myndu leggja sig verulega fram því að eitt af því sem kemur fram þegar skoðað er hvernig nemendur nálgast viðfangsefnið er að eitthvað er um að einhverjir klári ekki prófið. Annað sem hefur komið fram er að þar sem nemendurnir fá ekki einstaklingsútkomu hafa þeir nálgast prófið með öðru hugarfari. Því er mikilvægt að kynna að þetta skiptir máli því að þetta er mæling á menntakerfi okkar.

Ég er hins vegar á því að þó að þetta sé mæling og rannsókn eigum við ekki að miða alla stefnumótun við þær niðurstöður sem koma fram heldur eigum við að líta á niðurstöðurnar og þær leiðbeini okkur í framhaldinu við að sjá hvar við erum stödd.

Allir aðilar lýstu yfir áhuga á að taka þátt í frekara samráði um að sameina nálgunina á framkvæmdinni á PISA-könnuninni.

Matsþættir á árangri læsisverkefnisins eru fjölbreyttir. Meta þarf árangurinn á fleiri en einn veg. Þess vegna tel ég mjög brýnt (Forseti hringir.) að þegar niðurstöðurnar koma úr PISA 2018 nýtum við þær til að meta verkefnið (Forseti hringir.) og einnig forspártölur og niðurstöður samræmdra prófa á árunum 2015–2020.